Aðeins fjórir jarðskjálftar hafa mælst í kvikuganginum við Svartsengi frá miðnætti.
Að sögn Elísabetar Pálmadóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er líklegt að hvassviðri á svæðinu í nótt spili þarna inn í þar sem mælar Veðurstofunnar nema ekki allra minnstu skjálftana í slíku veðri.
Aðeins hefur lægt á svæðinu núna í morgun.
Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast, sem gæti endað með nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Eldgos gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur. Þá er líklegast að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells, að því er kom fram í tilkynningu frá Veðurstofunni í gær.