Hermann Nökkvi Gunnarsson
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að fólk hafi hvatt hana til að bjóða sig fram til forseta en að hún hafi ekki tekið afstöðu til mögulegs framboðs.
Ef þú hyggst ekki bjóða þig fram er þá ekki auðvelt að segja nei?
„Jú, en ég hef bara hreinlega ekki leitt hugann að þessu,“ svarar hún og bætir við:
„Það eru ýmis önnur verkefni sem ég hef verið að sinna. Það má kannski segja að það hafa fleiri verið að stíga fram og hvetja mig til að hugsa þetta, en ég hef ekki gert það.“
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði Katrínu í tvígang á þinginu í gær hvort að hún hygðist bjóða sig fram, en gaf hún hvorki af eða á.
En þú ert ekki tilbúin að útiloka framboð?
„Ég hef ekki tekið neina afstöðu til þess og hef ekki gefið þessu þann tíma til að hugsa þetta að alvöru,“ svarar Katrín.
Forsetakosningar fara fram í júní. Þegar hafa fimm tilkynnt um framboð en framboðsfrestur rennur út 26. apríl.
Það eru þau Axel Pétur Magnússon, Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon, Tómas Logi Hallgrímsson og Sigríður Hrund Pétursdóttir.
Þá hafa margir verið orðaðir við framboð eins og til dæmis Baldur Þórhallsson, Halla Tómasdóttir, Alma Möller, Ólafur Jóhann Ólafsson og hafa sumir jafnvel nefnt Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.