Fórnarlömb meints mansals fá dvalarleyfi

Meðal annars þóttu ummerki um að fólk hefði dvalið í …
Meðal annars þóttu ummerki um að fólk hefði dvalið í matvælalager í Sóltúni, að því er fram kemur í skýrslu Heilbrigðiseftirlitsins í Reykjavík. Samsett mynd

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar, segir að úrræði sem grípi fórnarlömb hugsanlegs mansals hafi verið virkjað. Hann segir fórnarlömb meints mansals fá tímabundið dvalarleyfi á meðan málið er til rannsóknar. 

Fram kom í tilkynningu frá lögreglu að rök­studd­ur grun­ur leik­i á man­sali, pen­ingaþvætti, brot­um á at­vinnu­rétt­ind­um út­lend­inga og grunur um skipu­lagða brot­a­starf­semi. Aðgerðir standa enn yfir að sögn Gríms. Aðgerðum utan höfuðborgarsvæðisins er lokið. 

Nokkrir aðilar hafa verið handteknir í tengslum við málið að sögn Gríms en hann vill ekki staðfesta fjölda þeirra.

Fjöldi stofnana kemur að aðgerðum í samstarfi við lögreglu. Þannig er það m.a. hlutverk velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvalda í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, auk þess sem félagsþjónustan í Hafnarfirði, Kópavogi og Bjarkarhlíð á að grípa þá einstaklinga sem verða óbeint fyrir aðgerðum lögreglu.

Grímur segir nokkra hafa verið handtekna.
Grímur segir nokkra hafa verið handtekna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fær hjálp á meðan mál er skoðað

Aðgerðirnar munu í mörgum tilfellum hafa áhrif á fólk sem hefur atvinnu- og dvalarleyfi og hefur haft atvinnu á þeim stöðum sem aðgerðir lögreglu beinast nú að.

Grímur segir að þessi hópur muni fá viðeigandi aðstoð.

„Þar sem grunur leikur á að fórnarlömb mansals séu til staðar þá eru ákveðin úrræði sem eru virkjuð. Þetta fólk fær tímabundið dvalarleyfi og er hjálpað með öðrum hætti hér á landi á meðan málið er skoðað,“ segir Grímur.

Grímur segir að ekki liggi fyrir hversu stóran hóp um sé að ræða á þessari stundu. 

Aðgerðir í þremur bæjarfélögum 

Fram kemur í tilkynningu að meðal annars hafi víða verið gerðar húsleitir.  Að sögn Gríms beindust aðgerðir lögreglunnar m.a. að fjórum stöðum í þremur bæjarfélögum úti á landi, en að stærstur þungi aðgerða sé á höfuðborgarsvæðinu. Hjá lögreglunni á Suðurlandi fengust þær upplýsingar að 4-5 lögreglumenn hefðu sinnt aðgerðum á tveimur stöðum í umdæminu.

Þá sinnti lögreglan á Akureyri og á Suðurnesjum einni aðgerð á hvorum staðnum fyrir sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert