Frelsið í þingsal ber að virða, skilja og verja

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, í bakgrunni. mbl.is/Árni Sæberg

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, opnaði þingfund á Alþingi í dag með því að gera grein fyrir uppnámi gærdagsins á þinginu.

Hann benti á að samkvæmt stjórnarskrá væri Alþingi friðheilagt og að öryggismál er vörðuðu þingið og þingmenn væru stöðugt til skoðunar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tók undir orð Birgis og benti á að það að búa við frið og öryggi væri ekki sjálfgefið. 

Í gær hékk hælisleitandi utan á handriði þingpalls Alþingi og virtist hóta því að hoppa niður. 

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Munu fara yfir öryggisráðstafanir

„Vegna atviks sem átti sér stað á þingfundi í gær vill forseti taka fram að samkvæmt stjórnarskrá og lögum er Alþingi friðheilagt og enginn má raska friði þess eða frelsi. Þingfundir eru haldnir í heyranda hljóði og almenningur getur fylgst með störfum þess og það er mikilvægur liður í þeirri lýðræðislegu skipan sem við búum við,“ sagði Birgir.

„Í því felst hins vegar ekki réttur til að trufla starfsemi þingsins eða raska með öðrum hætti störfum þess. Öryggismál sem varða þingið og þingmenn eru að sjálfsögðu stöðugt til skoðunar og endurmats og atvik sem upp koma hafa auðvitað áhrif á það mat. Á það vitaskuld einnig við þann atburð sem átti sér stað í gær og verður farið vel yfir verklag og öryggisráðstafanir sem ástæða er til að gera af því tilefni.“ 

Málfrelsið mikilvægt

Þorgerður byrjaði ræðu sína á því að þakka forseta Alþingis fyrir upphafsorð þingfundarins og ítrekaði orð hans. 

Þá gerði hún einnig grein fyrir þeim erfiðleikum sem mæta þeim sem flúið hafa stríð og vonaðist Þorgerður eftir því að þinghald gæti haldist opið þeim sem það vilja sækja. 

„Þinghelgin og málfrelsið úr þessum ræðustól er einn mikilvægasti kjarninn í okkar stjórnskipan sem byggir undir frelsi, mannréttindi og lýðræði sem hefur leitt okkur Íslendinga inn í meiri frið og öryggi en þekkist víðast hvar. Þetta frelsi hér í þingsalnum ber að virða, skilja og verja,“ sagði hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert