„Fyrstu viðbrögð hjá samstarfsfólkinu mínu voru þau að komið væri að stóra gagnalekanum,“ segir gamansamur Guðmundur Jóhannsson, tæknisérfræðingur og samskiptafulltrúi hjá Símanum spurður um ástæður þess að samfélagsmiðlarisinn Facebook liggur niðri.
Hann segir óljóst á þessari stundu hvað veldur en þegar þetta er skrifað hefur Facebook legið niðri í tæpa klukkustund.
„Ef ég ætti að giska án ábyrgðar þá myndi ég halda að eitthvað svipað sé að gerast núna og gerðist árið 2021. Þá fóru kerfi Meta niður vegna mannlegra mistaka við uppfærslu á netkerfinu þeirra,“ segir Guðmundur. Facebook liggur niðri ásamt Instagram og Threads sem öll tilheyra Meta.
„Það eru mjög flókin undirliggjandi kerfi á svona þjónustum. Það þarf því miður stundum mjög lítið útaf að bregða. Jafnvel bara innsláttarvilla hjá einhverjum sérfræðingi sem er að gera einfalda netuppfærslu,“ segir Guðmundur. Hann segir að í flóknum kerfum geti tekið langan tíma að finna orsökina.
Notendur hafa sjálfkrafa verið skráðir út og segir Guðmundur eðlilegt að fólk hugsi að reikningur þeirra hafi verið hakkaður. Hins vegar má sá á vefsíðunni downdetector að 500 þúsund tilkynningar hafa borist um bilunina. Því mætti ætla að um alheimsvanda sé að ræða og ekkert sem fólk þarf að óttast.