Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir lítið mál að klára gerð kjarasamninga VR og Samtaka atvinnulífsins á skömmum tíma. Vandamálið sé hins vegar ef viðsemjendurnir [SA] eru ekki móttækilegir fyrir hugmyndum VR.
„Eðli málsins samkvæmt getur það orðið togstreita,“ segir Ragnar spurður hversu hratt hann telur að samningar getið náðst milli VR og SA.
Fyrsti fundur í endurkomu VR og LÍV í kjaraviðræðunum fór fram í Karphúsinu í gær, en VR og LÍV slitu sig frá breiðfylkingu stéttarfélaga þann 23. febrúar og höfðu ekki fundað í Karphúsinu síðan þá.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við mbl.is að fundinum loknum að um vinnufund hafi verið að ræða þar sem unnið var að skipulagningu framhaldsins. Aðspurður kveðst Ragnar vona að hægt verði að halda viðræðunum áfram á morgun, en hann segir næsta fund ekki hafa verið boðaðan.
Ragnar segir heilmikla forvinnu hafa verið unna innan VR og LÍV, félögin séu því ekki að byrja á byrjunarreit gagnvart SA.
„Við erum bara að fylgja þeim fjölmörgu málum eftir sem að þarf að leysa,“ segir hann og útskýrir að ganga þurfi frá ýmsum sérsamningum samhliða aðalsamningi. Ragnar segir þessa sérsamninga varða bæði mál sem eru sameiginleg með öllum félögum innan ASÍ, en jafnframt mál sem einungis varða félagsmenn VR og LÍV.
„Þannig að kjarasamningarnir sem slíkir, þó kannski stóru línurnar séu farnar að skýrast að einhverju leiti þá eru þær ekki alveg fullræddar, síðan eru það sérmálin þau munu taka mestan tíma hjá okkur eins og hjá breiðfylkingunni.“
Sérsamningar félagsmanna VR sem starfa á Keflavíkurflugvelli eru dæmi um sérsamninga, eða mál, sem þurfi að leysa. Til útskýringar segir Ragnar að þar starfi félagsfólk VR eftir vinnufyrirkomulagi sem ekki þekkist í kjarasamningi VR.
„Svo kallaðar stubbavaktir. Þar er fólk að mæta til vinnu klukkan fimm á morgnana, er síðan sent heim klukkan níu og mætir svo aftur klukkan eitt og er til klukkan fimm á daginn,“ segir Ragnar og áréttir að það sé skýrt í kjarasamningum VR að dagvinnutímabilið eigi að vera samfellt.
Ragnar segir áform uppi um verkfallsaðgerðir þessar hóps. Spurður hvort þau áform breytist nú þegar VR og LÍV eru komin aftur að samningaborðinu svarar Ragnar því til að staðan sé metin dag frá degi. Hann bindur þó vonir við að umræddur sérsamningur verði ræddur sem fyrst.
„Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að við erum að tala um fjögurra ára kjarasamning. Við erum að læsa fólkið okkar inni í fjögur ár í friðarskyldu, þannig að það er gríðarlega mikilvægt að það sé vandað til verka og að það náist ásættanleg niðurstaða um þennan samning,“ segir Ragnar spurður um samningsgrundvöll VR og LÍV gagnvart SA nú þegar aðrir kjarasamningar virðast langt á veg komnir.
Í því samhengi áréttir hann að VR og LÍV séu gríðarlega vel undirbúin undir viðræður við SA, enda hafi félögin nýtt tímann, frá því þau gengur frá samningaborði breiðfylkingar stéttarfélaga og SA, vel til undirbúnings.
„Þannig að við ættum að geta unnið þetta mjög hratt og vel ef samningsviljinn er til staðar hjá okkar mótaðila.“
Hvað er hratt í ykkar huga?
„Í eðli sínu gætum við klárað kjarasamninga á mjög skömmum tíma. Þá er ég að tala um í dögum talið frekar en einhverjum löngum tíma. En þetta veltur auðvitað á mótaðilanum. Ef hann er tilbúinn í verkefnið af sama krafti og við þá getum við lokað hér kjarasamningi á mjög stuttum tíma. Það er ekki vandamálið, vandamálið er ef okkar viðsemjendur eru ekki móttækilegir fyrir okkar hugmyndum.“