Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands lagði í dag krans á minnisvarða um fallnar þjóðhetjur í Georgíu.
Guðni er þar í opinberri heimsókn og með í för er Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, og sendinefnd fulltrúa úr viðskiptalífinu sem hyggjast kanna möguleika á auknu samstarfi í uppbyggingu endurnýjanlegrar orku, m.a á sviði beinnar nýtingar jarðvarma, vatnsaflsvirkjana og fjárfestinga í loftslagslausnum.
Í dag var einnig móttökuathöfn fyrir forseta Íslands hjá forseta Georgíu í Orbeliani forsetahöllinni. Er þetta fyrsta heimsóknin af þessu tagi til Georgíu og er henni ætlað að efla tengsl þjóðanna, meðal annars með aukinni samvinnu á sviði loftslagsmála og grænna lausna.
Auk tvíhliða funda með stjórnvöldum verður efnt til viðskiptaþings og vatnsaflsvirkjun Landsvirkjunar og Verkís heimsótt. Einnig mun forsetinn flytja aðalerindi á alþjóðlegri ráðstefnu og fyrirlestur við Tbilisi-háskóla.
Heimsókninni lýkur á fimmtudaginn.