Um helmingur innflytjenda á Íslandi hefur tekið ákvörðun um að búa hér til frambúðar. Þá er hærra hlutfall innflytjenda á atvinnumarkaði og í fullu starfi í samanburði við innfædda Íslendinga, og menntunarstig innflytjenda sömuleiðis hærra.
Fjárhagsstaða, húsnæðisbyrði og andleg heilsa innflytjenda mælist þó verr en meðal innfæddra. Þá sér stór hluti innflytjenda ekki fram á að geta sótt íslensku námskeið sökum tímaskorts.
Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar um stöðu launafólks á Íslandi sem Varða, ASÍ og BSRB stóðu fyrir.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat fyrir svörum eftir að niðurstöður könnunarinnar voru kynntar í Þjóðmenningarhúsinu.
Spurð hvernig við gætum tekið betur á móti þessum hópi sagði Katrín m.a. íslenskukunnáttu lykil að samfélaginu. Í því samhengi þyrfti að auka tungumálakennslu sem fólk gæti sótt á vinnutíma og efla sérfræðiþekkingu meðal þeirra sem kenna íslensku sem annað tungumál.
Hún sagði mikið verk að vinna. „Við megum ekki skapa þannig samfélag að þau sem eru af erlendum uppruna séu með lægri laun og búi við þannig aðstæður að við séum í raun og veru að búa til samfélag þar sem að eru ólíkar stéttir sem tali ekki saman.“
Þá væri mikilvægt að auka skilning og byggja brýr milli ólíkra menningarheima.