Rúmlega helmingur landsmanna er fremur eða mjög jákvæður fyrir því að Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, verði næsti forseti Íslands, samkvæmt könnun Maskínu. Þá er minnsta neikvæðnin í garð Ólafs Jóhanns Ólafssonar rithöfundar.
Hópur stuðningsmanna Baldurs hittist á heimili Baldurs og Felix Bergssonar í gær og þar kynnti Valgeir Magnússon, einnig þekktur sem Valli sport, niðurstöður könnunar sem hann lét framkvæma fyrir sig.
Í könnuninni kemur fram að 53% svarenda eru fremur eða mjög jákvæðir gagnvart því að Baldur verði forseti, 40% gagnvart því að Ólafur verði forseti og 35% gagnvart því að Halla Tómasdóttir, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, verði forseti.
Í samtali við mbl.is segir Valgeir að stuðningsmenn Baldurs bíði nú svara frá honum um það hvort að hann taki í gikkinn og bjóði sig fram til forseta.
„Við sem erum að styðja Baldur erum að undirbúa okkur í það að vonandi samþykki hann að fara í framboð,“ segir Valgeir aðspurður um hvort að það sé komið framboðsteymi.
„Baldur er framúrskarandi á sínu svið. Hann er fremsti maður í heiminum á fræðigrein sem snýr að smáríkjum og að því hvernig smáríki geta haft áhrif. Hann kemur ofboðslega vel fyrir og er góð persónu – og þeir báðir. Felix er líka ofboðslega sterk persóna með honum þannig við sjáum þetta fyrir okkur sem svo sterkt teymi,“ segir Valgeir.
Leikarinn og rithöfundurinn Gunnar Helgason hefur skorað á Baldur Þórhallsson að bjóða sig fram til forseta lýðveldisins. Hefur hann stofnað stuðningsmannahóp á Facebook þar sem hann hvetur Baldur til dáða og ritar þar hvatningarorð til vina sinna.
Innan við sólarhringur er síðan facebook-hópurinn var stofnaður og yfir 9.000 manns hafa gerst meðlimir.
Valgeir þekkir Baldur og Felix persónulega og kveðst hann einnig hafa framkvæmt könnun fyrir Baldur fyrir 8 árum síðan. Þá ákvað Baldur að láta ekki til skara skríða en Valgeir vonast til þess að það verði annað upp á tengingum núna.
„Það er allavega búið að segja við mig að þeir ætli að hlusta aðeins lengur og sjá hvernig landslagið liggur,“ segir Valgeir.
Forsetakosningar fara fram í júní. Þegar hafa fimm tilkynnt um framboð en framboðsfrestur rennur út 26. apríl.
Það eru þau Axel Pétur Magnússon, Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon, Tómas Logi Hallgrímsson og Sigríður Hrund Pétursdóttir.
Þá hafa margir verið orðaðir við framboð eins og til dæmis Alma Möller, Katrín Jakobsdóttir og þá hafa sumir jafnvel nefnt Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.