Hermann Nökkvi Gunnarsson
Það er fagnaðarefni að 72 palestínskir dvalarleyfishafar frá Gasa fái að nýta rétt sinn til fjölskyldusameiningar á Íslandi.
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
„Eins og legið hefur fyrir þá var umsóknum fólks sem bárust fyrir 7. október – þeim var forgangsraðað af hálfu Útlendingastofnunar. Síðan hafa þessi mál verið töluvert í umræðu og eins og við höfum ítrekað sagt þá höfum við unnið að því greiða fyrir för þessa fólks til Íslands og sú vinna skilaði þessum árangri í gær,“ segir hún og bætir við:
„En það er bara fagnaðarefni að þetta fólk fái notið síns réttar sem það hefur öðlast hér á Íslandi.“
Dvalarleyfishafarnir komu til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands, seint í gærkvöldi. Þeir halda í kjölfarið til Íslands eftir að ísraelsk stjórnvöld afgreiddu fyrirliggjandi nafnalista um helgina. Katrín segir ferlið hafa verið flókið.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra átti símafund með Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, síðastliðinn þriðjudag til að greiða fyrir afgreiðslu málsins.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir í samtali við mbl.is að í ljósi þess að ísraelsk stjórnvöld hafi samþykkt listann þá megi gera ráð fyrir því að þarlend stjórnvöld hafi kannað bakgrunn fólksins.