Krónan hefur slitið leigusamningi sínum við veitingastaðakeðjuna Wok On. Staðir Wok On voru starfræktir á þremur stöðum innan verslana Krónunnar.
Tilkynning þess efnis blasti við viðskiptavinum Krónunnar á Granda nú síðdegis í dag. Aðrir veitingastaðir Wok On á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði eru lokaðir. Veitingastaður Wok On í Vík er opinn.
Daði Guðjónsson, markaðsstjóri Krónunnar, vill ekki staðfesta að uppsögn samningsins tengist aðgerðum lögreglu í dag beint. Segir hann að Krónan hafi slitið leigusamningi við Wok On fyrir nokkru síðan og fyrirtækið leiti nú eftir nýjum leigutökum í rýmið.
Wok On hefur leigt rými í þremur verslunum Krónunnar. Á Granda í Reykjavík, Akureyri og í Mosfellsbæ.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, í samstarfi við fjölda aðila, stendur nú í víðtækum aðgerðum á höfuðborgarsvæðinu. Aðgerðin er ein sú umfangsmesta sem lögreglan hefur staðið í.
Rökstuddur grunur leikur á mansali, peningaþvætti, brotum á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi.
Hluti aðgerðanna snýr að Herkastalanum í Kirkjustræti þar sem rekið er gistihúsið Kastali Guesthouse.
Það er í eigu Davíðs Viðarssonar eiganda Vy-þrifa, Pho Víetnam og Wok On. Þá er hann eigandi að matvælalager sem heilbrigðiseftirlitið lokaði vegna óheilnæmra geymslu matvæla.