Kvikan hafi hugsanlega leitað í lokaða sprungu

Kvikugangurinn sem myndaðist á laugardaginn var um 3 km langur …
Kvikugangurinn sem myndaðist á laugardaginn var um 3 km langur og náði frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli. Kort/mbl.is

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur tvær líklegar skýringar á því að kvika náði ekki til yfirborðs þegar hún fór úr kvikuhólfinu á laugardaginn.

Annars vegar að kvikan hafi leitað úr hólfinu í sprungu sem var ekki opin til yfirborðs, og hins vegar að drifkraftur kvikuhreyfingarinnar hafi ekki verið nægur til að brjóta sér lengri leið en raun bar vitni.

Telur hann fyrri skýringuna líklegri í ljósi þess að svipaður þrýstingur hafði byggst upp í kvikuhólfinu, ef marka má mælingar á kvikumagninu sem hafði safnast, og þegar eldgos braust út 8. febrúar. Hefði því kvikan átt að ná að drífa til yfirborðs ef ekki vegna þess að sprungan sem hún leitaði í var lokuð.

Dregur bráðum til tíðinda

Veðurstofan áætlar að 1,3 milljón rúmmetrar hafi kviku hafi farið úr kvikuhólfinu undir Svartsengi og í kvikuganginn sem myndaðist á laugardag. Kvikugangurinn sem myndaðist er talinn hafa náð frá Stóra-Skógfelli að Hagafelli, og er um 3 km langur.

Rúmmál kvikunnar sem fór af stað er mun minna en í fyrri atburðum sem hafa leitt til eldgosa á Reykjanesskaganum á síðustu mánuðum.

Þorvaldur telur líklegt að það dragi til tíðinda á morgun eða síðar í vikunni enda sé nú svipað magn kviku búið að safnast fyrir í kvikuhólfinu og áður en kvikan fór á hreyfingu á laugardaginn. 

„Kerfið er aftur að ná þolmörkum,“ segir Þorvaldur.

Þá sé erfitt að segja til um hvort atburður liðinnar helgar verði til þess að minni eða meiri líkur séu á að kvikan komist upp til yfirborðs næst þegar hún fer af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert