Á sjöunda tug lögreglumanna að lágmarki koma að umfangsmiklum lögregluaðgerðum sem eru í gangi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra.
Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fer fyrir rannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi hjá embættinu.
„Varðandi þennan málaflokk er þetta með stærstu eða stærsta aðgerðin sem lögreglan hefur staðið í,“ segir Elín.
Hún vill ekki gefa það upp hvort einhver hafi verið handtekinn í tengslum við aðgerðirnar.
Samkvæmt heimildum mbl.is snúa aðgerðirnar að veitingastöðum, gistiheimilum og heimilum fólks.