Framboð af hentugu húsnæði á leigumarkaði minnkaði á milli haustmánaða 2022 og 2023. Samningsstaða leigjenda gagnvart leigusölum versnaði sömuleiðis.
Staðan versnaði mest á meðal leigjenda á aldrinum 35-44 ára, sem upplifðu meiri verðhækkanir og búa við þrengri kost en aðrir aldurshópar, að því er segir í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), sem framkvæmir á hverju ári mælingu á stöðu leigjenda.
Aldrei frá upphafi mælinga, eða frá árinu 2015, hefur framboð af hentugu húsnæði mælst jafnlítið og nú. Það hefur lækkað samfellt frá árinu 2020. Í aldursflokknum 35-44 ára er framboðið minna samanborið við aðra aldurshópa sem bendir til þess að hentugt húsnæðið fyrir fjölskyldufólk sé af skornum skammti.
Fram kemur í tilkynningunni að þriðji hver leigjandi taldi sig vera í sterkri samningsstöðu gagnvart leigusala í fyrrahaust, samanborið við 50% leigjenda á haustmánuðum 2022.
Í aldurshópnum 35-44 ára tók meðalfjárhæð leigu stökk milli ára úr 180 þúsund krónum frá fyrra ári í rúmlega 210 þúsund krónur, eða sem nemur 16,8% hækkun milli ára.
Hækkun meðalleigufjárhæðar er mest innan þessa hóps en í könnunni í heild nemur hækkun meðalleiguverðs 9,2% milli ára.
„Þeim fer fækkandi sem telja að samningsstaða sín gagnvart leigusala sé sterk en verst koma niðurstöður könnunar út fyrir aldurshópinn 35-44 ára. Ríflega fjórðungur þess hóps (26%) telur að samningsstaða sín sé sterk gagnvart leigusala en hlutfallið var 36% í könnun 2022. Í 2022 könnun í heild sinni taldi um annar hver svarandi (49%) að samningsstaða sín væri sterk gagnvart leigusala en í ár telur rétt rúmlega þriðji hver svarandi að svo sé (35%),” segir í tilkynningunni.