Óvenju fá illviðri í febrúar

Sautján alhvítir dagar voru í Reykjavík í febrúar.
Sautján alhvítir dagar voru í Reykjavík í febrúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Febrúar var kaldur og snjór þakti stóran hluta landsins meirihluta mánaðarins. Tíð var þó tiltölulega góð, það var hægviðrasamt og illviðri óvenjulega fátíð.

Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands en þar segir að norðaustlægar áttir hafi verið algengastar. Það var tiltölulega þurrt suðvestanlands en úrkomusamara norðaustanlands.

Kalt og hiti vel undir meðallagi á landinu

Febrúar var kaldur og hiti var vel undir meðallagi á landinu öllu. Að tiltölu var kaldast í innsveitum en hlýjast við strendur á sunnan- og austanverðu landinu. 

Meðalhiti í Reykjavík í febrúar var -0,9 stig. Það er 1,4 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Á Akureyri var meðalhitinn -2,9 stig, 2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 2,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins -1,6 stig og 0,1 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 2,4 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -8,5 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -6,6 stig.

Úrkoma í Reykjavík mældist 55,3 mm sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 74,7 mm sem er um 45% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

17 alhvítir dagar í Reykjavík

Það var alhvítt meirihluta mánaðarins bæði í Reykjavík og á Akureyri og um mest allt land. Það voru 17 alhvítir dagar í Reykjavík í febrúar, sem er fimm dögum meira en að meðaltali 1991 til 2020. Alhvítir dagar á Akureyri voru 26, sem er tíu fleiri að meðaltali 1991 til 2020.

Það var sólríkt í Reykjavík. Þar mældust sólskinsstundir 92,0 sem er 30,4 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 43,2 sem er 9,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert