Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri í Reykjavík, segir að beiðni hafi komið frá lögreglunni um að hafa fulltrúa frá slökkviliðinu til að meta aðstæður með tilliti til eldvarna í nokkrum húsakynnum sem umfangsmiklar aðgerðir lögreglu beinast að.
„Þarna var okkar hlutverk að meta aðstæður út frá brunahættu. Þetta er hluti af rannsókn lögreglu,“ segir Jón Viðar.
Hann segist ekki vita hvort íbúar séu í þeim rýmum sem aðgerðir lögreglunnar snúa að. Einungis hafi komið fram ósk um að meta eldvarnir á þessum stöðum.
Jón Viðar telur að þætti slökkviliðsins sé lokið að sinni en fram kom í máli Elínar Agnesar Kristínardóttur sem fer fyrir rannsóknum skipulagðri brotastarfsemi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að aðgerðirnar muni vara langt fram á kvöld og að á sjöunda tug lögreglumanna komi beint að þeim.