Stigmögnun í mótmælum og ráðamönnum hótað

Samsett mynd

Ákveðin stigmögnum hefur sést í mótmælum að undanförnu og eru dæmi um það að ráðamönnum hafi verið hótað.

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Í gær var uppþot í þinginu þar sem karlmaður hékk utan á hand­riði þing­pall­anna á Alþingi í gær og virt­ist hóta því að hoppa niður. Gerði hann þetta á sama tíma og Guðrún var að mæla fyrir nýju útlendingafrumvarpi. 

Vonar að þetta sé ekki til framtíðar komið

Er þetta til marks um nýjan veruleika á Íslandi?

„Ég veit það ekki. En það eru auðvitað búin að vera mótmæli við Alþingishúsið og ráðherrabústaðinn í nokkra mánuði. Maður hefur séð ákveðna stigmögnun þessara mótmæla og þetta var kannski birtingarmynd þess í gær. Auðvitað vonast maður til þess að þetta sé nú ekki eitthvað til framtíðar komið,“ segir Guðrún. 

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra varð fyrir aðsúgi mótmælenda í desember og glimmeri kastað yfir hann. Í febrúar var svo ráðist að Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, er hún var að koma úr þinginu. Klakastykki var kastað í bíl hennar og var hreytt í hana fúkyrðum þar til lögreglumaður skarst í leikinn.

Ráðamenn fengið hótanir

mbl.is greindi frá því í febrúar að lögreglan tekið ákvörðun um að verja þingflokk Sjálfstæðisflokksins í hringferð flokksins um landið. Voru lögreglumenn sjáanlegir á fundum flokksins víðs vegar en Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður tók fram að lögregluverndin væri ekki að beiðni flokksins, heldur veitt af lögreglunni vegna áhættumats.

Spurð hvort að þingmenn þurfi að óttast um öryggi sitt kveðst Guðrún ekki vilja fullyrða um slíkt.

„Ég skal ekki fullyrða um það, en það eru dæmi um að ráðamenn hafi fengið hótanir,“ segir Guðrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert