Sveitarfélögin ekki að kveinka sér undan aðkomu

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, og Ásdís …
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs. Samsett mynd

Sveitarfélögin gera sér fulla grein fyrir því aðkoma þeirra að gerð kjarasamninga skiptir gríðarlega miklu máli. Það er aðferðarfræðin sem þau gæta varúðar við og sú staðreynd að þröngur hópur foreldra grunnskólabarna fái kjaraleiðréttingu umfram aðra. 

Þetta kemur meðal annars fram í bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem mbl.is hefur undir höndunum. Bókunin er frá því á föstudag og er sett fram í samhengi við forsendur breiðfylkingar stéttarfélaga, í samningaviðræðum um kjarasamninga, sem snúa að sveitarfélögunum, en bókunin snýr einungis að þeim þætti er varðar gjaldfrjálsar skólamáltíðir. 

„Stjórn Sambandsins óskar eftir því að ríkisvaldið leiti annarra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga. Stjórnin er reiðubúin til samtals um málið á breiðum grundvelli með það að leiðarljósi að tryggja barnafjölskyldum kjarabætur og velferð," segir í bókuninni. 

Einungis kjarabót fyrir foreldra grunnskólabarna

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, taka öll undir bókun Sambandsins og segja sveitarfélögin að sjálfsögðu reiðubúin að leggja sitt af mörgum til að liðka við gerð kjarasamninga. 

„Við erum ekkert að kveinka okkur undan því að hafa aðkomu ef það getur orðið til þess að lækka verðbólguna og auka hag almennings á Íslandi. Það er aðferðarfræðin sem við gætum varhug við,“ segir Elliði. 

Þannig snýr gagnrýnin einna helst að því ákvæði um gjaldfrjálsar skólamáltíðir nær einungis til grunnskólabarna. Þar með er einungis um að ræða kjarabót fyrir foreldra grunnskólabarna, en ekki foreldra leikskóla- eða framhaldsskólabarna. 

„Ef að ríki eða sveitarfélög eiga að liðka undir þeim samningum finnst mér mikilvægt að þær aðgerðir tryggi öllum barnafjölskyldum kjarabætur, ekki einungis hluta þeirra eins og lagt er til með þessari aðgerð,“ segir Ásdís. 

Leggja til breiðvirkari leiðir 

Öll eru þau sammála um að hægt sé að fara breiðvirkari leiðir til að koma kjarabótum til viðsemjenda. Elliði leggur til að farin verði sú leið að halda gjaldskrám sveitarfélaganna, sem snúa að börnum og barnafjölskyldum, stöðugum frá og með síðustu áramótum. 

Þá leggja Ásdís og Íris til ótekjutengdar barnabætur. „Ef þetta á að vera partur af kjarasamningi, þá hlýtur þetta að eiga að snerta fleiri heldur en hluta barnafjölskyldna,“ segir Íris.  

Ásdís tekur í sama streng og segir að ef hugmyndin sé að styðja við tekjulág heimili grunnskólabarna, þá sé það hennar mat að hægt væri að fara betri leiðir en að bjóða upp á fríar máltíðir fyrir grunnskólabörn óháð efnahag. 

Vantrú sveitarfélaganna á fjárhagsleg samskipti við ríkið 

Elliði segir vantrú sveitarfélaganna á fjárhagsleg samskipti við ríkið vissulega spila inn í sýn sveitarfélaganna á málið. En ríkið hyggst leggja fjárhag til verkefnisins næstu fjögur árin. 

„Af því að það er nánast engin undantekning á því að verkefni sem sveitarfélögin taka á sig með stuðningi ríkisins verða til þess að innan skamms sitja sveitarfélögin ein uppi með þann reikning.“ 

Þetta er líka kannski þannig verkefni að það er erfitt að ganga til baka og byrja aftur að rukka fyrir skólamáltíðir?

„Það bara gerist aldrei að þjónusta sé tekin til baka eða gjald sett aftur á.“

Elliði segir þetta þannig stefnumótandi ákvörðun sem þurfi að nást breiðari sátt um við sveitarfélögin. Sérstaklega í ljósi þess að sveitarfélögin eru ekki viðsemjendur í umræddum kjarasamningum. 

Sveitarfélögin reiðubúin til samtals 

„Fljótt á litið þá snýst þetta ekki um að einhver sé á móti því að það eigi að gefa grunnskólabörnum frían mat. Þetta er auðvitað spurning um aðferðarfræði og hvernig fjármagnið nýtist sem best fyrir sem flesta.“ segir Íris sem áréttir að sveitarfélögin séu svo sannarlega að að leggja sitt af mörkum til að liðka við gerð kjarasamninga. 

Öll segja þau að sveitarfélög landsins séu reiðubúin í samtal og nefna sem dæmi að lang flest sveitarfélög hafi lýst yfir vilja til að endurskoða gjaldskrár svo dæmi séu tekin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert