Umfangsmiklar aðgerðir lögreglu

Aðgerðir eru í Herkastalanum á Kirkjustræti þar sem rekið er …
Aðgerðir eru í Herkastalanum á Kirkjustræti þar sem rekið er gistihús. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stendur í víðtækum lögregluaðgerðum í umdæminu og utan þess. Rökstuddur grunur leikur á mansali, peningaþvætti, brotum á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt heimildum mbl.is snúa aðgerðirnar að Herkastalanum í Kirkjustræti þar sem rekið er gistihúsið Kastali Guesthouse.

Það er í eigu Davíðs Viðarssonar eiganda Vy-þrifa, Pho Víetnam og Wok On. Þá er hann eigandi að matvælalager sem heilbrigðiseftirlitið lokaði vegna óheilnæmra geymslu matvæla. 

Eins lék grunur á því að fólk gisti á lagernum. 

Lögreglan hefur innsiglað Kastali Guesthouse.
Lögreglan hefur innsiglað Kastali Guesthouse. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hófust fyrir hádegi og munu standa yfir fram eftir degi

Aðgerðirnar hófust fyrir hádegi að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni. Munu þær standa fram eftir degi. 

Í þeim felst að ráðist er í húsleitir á fjölmörgum stöðum. 

Þá hefur lögreglan sett innsigli á Herkastalann að Kirkjustræti, einnig á hótel á Skólavörðustíg.

Samvinna fjölda aðila

Lögreglan fór í aðgerðirnar í samvinnu við lögregluliðin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. 

Þá koma einnig embætti ríkislögreglustjóra, tollgæslan, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði að málinu auk félagsþjónustunnar í Kópavogi og Hafnarfirði. 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og Bjarkarhlíð koma einnig að aðgerðunum. 

Segir í tilkynningu að lögreglan geti ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert