Vilja sérstaka neyðarmóttöku fyrir þolendur ofbeldis

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í heilbrigðiskerfinu erum við að átta okkur betur og betur hvað það er mikilvægt að veita réttu þjónustuna við ofbeldi,“ segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala. 

Bráðadagurinn sem er þverfagleg ráðstefna fyrir fagfólk í bráðaþjónustu fór fram um helgina, en þar var ályktað að þörf sé á að koma á fót sérstakri klínískri ofbeldismóttöku með svipaða hugmyndafræði að baki og neyðarmóttaka kynferðisofbeldis.

Í samtali við mbl.is segir Hjalti að þegar hafi verið gerðar miklar og róttækar breytingar til þess að bæta þjónustu við þolendur ofbeldis en að enn sé margt sem þurfi að gera betur. 

Þurfa oft flókna læknisþjónustu vegna áverka

„Þá liggur beint við að nýta reynsluna af afar vandaðri og góðri þjónustu hjá neyðarmóttöku kynferðisofbeldis,“ segir Hjalti en móttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis, hefur verið starfrækt í nær 30 ár. 

„Þolendur ofbeldis eru viðkvæmur hópur. Þau þurfa að fá flókna læknisþjónustu stundum vegna áverka. Það er flókið verk að afla réttra gagna og lífsýna til að nota í dómsmáli út af þessum ofbeldisverkum,“ segir Hjalti. 

„En einnig þarf líka að huga að heildstæðri þjónustu með réttargæslumann, með félagsþjónustu, áfallahjálpar sálfræðinga, og það er mjög mikilvægt að þetta sé gert í öflugu teymi.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert