Bessí Jóhannsdóttir, fv. kennari við Verzlunarskóla Íslands og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, var kjörin formaður Samtaka eldri Sjálfstæðismanna (SES) á fjölmennum aðalfundi félagsins, sem fram fór í Valhöll í dag.
Bessí tekur við Halldóri Blöndal, fv. forseta Alþingis og samgönguráðherra, en hann hefur gegnt formennsku í félaginu sl. 15 ár. Þá var Ingibjörg H. Sverrisdóttir, fv. formaður FEB, kjörin varaformaður og Drífa Hjartardóttir, fv. alþingismaður, kjörin ritari.
„Þessi fundur markar tímamót þar sem konur gegna nú öllum embættum innan stjórnar Samtaka eldri Sjálfstæðismanna. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni, en kjósendahópur eldra fólks fer sístækkandi. Það er nokkuð ljóst að við þurfum að bretta upp ermar og vinna að brýnum verkefnum í þágu þessa hóps,“ segir Bessí í tilkynningu um kjörið.
„Þó orð séu til alls fyrst, þá er nokkuð ljóst að það þarf efndir og athafnir í stað orða. Við ætlum að koma málefnum eldri borgara á dagskrá Sjálfstæðisflokksins,“ segir Bessí Jóhannsdóttir, nýkjörinn formaður SES.
Stjórn SES skipa nú þau Bessí Jóhannsdóttir formaður, Ingibjörg H. Sverrisdóttir varaformaður, Drífa Hjartardóttir ritari, Finnbogi Björnsson, Guðjón Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Hafsteinn Valsson, Leifur A. Ísaksson og Þór Guðmundsson.