„Efla rekstur innlendra fjölmiðla“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Samsett mynd

Drög að stefnu um málefni fjölmiðla til ársins 2030 og aðgerðaráætlun henni tengdri hafa verið birt í samráðsgátt. Um er að ræða fyrstu opinberu stefnu um málefni fjölmiðla á Íslandi.

„Í fjölmiðlastefnunni birtast skýr áform stjórnvalda um að efla rekstur innlendra fjölmiðla og bæta starfsumhverfi fjölmiðlafólks. Fjölmiðlastefnan endurspeglar mikilvægi faglegra fjölmiðla fyrir íslenskt samfélag og lýðræði. Það er tímabært að málefni fjölmiðla í víðu samhengi verði sett á dagskrá í íslensku samfélagi og að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til styðja við starfsemi þeirra,“ er haft eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, á vef Stjórnarráðsins.

Hún segist þess fullviss að með meginmarkmið stefnunnar að leiðarljósi náist að efla öfluga íslenska fjölmiðlun til framtíðar.

Með stefnunni er mótuð framtíðarsýn og skilgreindar lykiláherslur á málefnasviði fjölmiðla með það að markmiði að efla fjölbreytni og fagmennsku á fjölmiðlamarkaði og bregðast við áskorunum samtímans á sviði tækni og stafrænna miðla.

Heildarumfangið 727 milljónir á árinu

Að loknu samráðsferli hyggst menningar- og viðskiptaráðherra mæla fyrir þingsályktunartillögu um málið á Alþingi Íslendinga. Hljóðar heildarumfang aðgerðanna til stuðnings einkarekinna fjölmiðla upp á 727,2 milljónir á árinu.

Stefnan kemur meðal annars inn á minnkun umsvifa RÚV á auglýsingamarkaði og því hefur ráðuneytið birt skýrslu starfshóps um málefni Ríkisútvarpsins með tillögum sem miða að minnkun umsvifa ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaði og skoða leiðir til að létta á lífeyrisskuldbindingum stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert