Eik fasteignafélag, sem á og rekur Smáratorg 1, skoðar nú samning sinn við Wok On sem rekur veitingastað í byggingunni.
Þetta segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri félagsins, í samtali við mbl.is.
„Við erum að kortleggja stöðuna,“ segir Garðar.
Eins og greint hefur verið frá þá sleit Krónan viðskiptasambandi sínu við Wok On í gær eftir umfangsmikla lögregluaðgerð. Sex hafa verið vistaðir í gæsluvarðhald en grunur er um mansal, peningaþvætti, brot á atvinnuréttindum útlendinga og skipulagða brotastarfsemi.
Gróðurhúsið leitar leiða til að rifta samningi sínum við Wok On og Mathöll Höfða skoðar einnig samning sinn við Wok On.
„Manni er óneitanlega brugðið. Við erum með málið til skoðunar og erum að kanna þá möguleika sem eru í stöðunni,“ segir Garðar.
Spurður hvort að félagið hyggist grípa til sömu ráða og Krónan segir hann að félagið sé með samninginn við Wok On til skoðunar.
„Í málum sem þessum leitast félagið við að gæta sinna hagsmuna og mun málið skoðast út frá ákvæðum leigusamnings og lögum í landinu,“ segir Garðar að lokum.
Veitingastöðum Wok On á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði hefur verið lokað. Á meðal þeirrar starfsemi sem lögreglan stöðvaði síðdegis í gær er gistihúsið Kastali Guesthouse.
Starfsemi Kastalans og Wok On er í eigu athafnamannsins Davíðs Viðarssonar. Hann rekur einnig Vy-þrif og veitingastaði Pho Vietnam.