„Einhvers staðar þarftu að byrja“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, fagnar því að stéttarfélögin leggi áherslu á málefni barna í tengslum við kjarasamninga. Hann hvetur sveitarstjórnarfólk til þess að stíga skrefið saman og bjóða upp á gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum landsins. 

„Þetta er gríðarlega gott jöfnunartæki og við eigum að byggja upp traust til að geta gert þetta áfram. Af því að undir eru ofboðslegir hagsmunir í kjarasamningum.“ 

Þekkt er að stjórnvöld komi að kjarasamningum með einhverjum hætti og á því verður engin undantekning í kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttarfélaga sem nú er unnið að í Karphúsinu.

Ekki liggur ljóst fyrir hver aðkoma ríkisins verður en rætt hefur verið um að ríki og sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum. Um er að ræða aðkomu í kjarasamningunum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt og því stendur á sveitarfélögunum að fallast á ráðstöfunina. Ef af þessu verður kemur ríkið til með að styðja sveitarfélögin í verkefninu næstu fjögur árin. 

Bindur vonir við að hægt verði að byggja ofan á ákvörðunina

Sé litið til sögulegs samhengis kjarasamninga segir Ásmundur gríðarlega mörg jákvæð skref hafa verið stigin. Hann nefnir húsnæðismál og tryggingu launafólks sem dæmi og fagnar því að nú sé jafnframt verið að líta til fjölskyldna í landinu. 

Spurður hvers vegna einungis eigi að líta til fjölskyldna grunnskólabarna en ekki leikskóla- og framhaldsskólabarna svarar Ásmundur: 

„Ég held að þetta geti verið skref sem við erum að stíga. Ég yrði fyrsti maður til að segja að við tækjum líka inn leikskóla- og framhaldsskólastigið en einhvers staðar þarftu að byrja. Það held ég að sé líka undirstrikun stéttarfélaganna, með því að leggja þetta fram með þessum hætti, að þau vilja byrja einhverstaðar og það er jákvætt skref,“ segir Ásmundur sem bindur vonir við að hægt verði að byggja ofan á ákvörðunina. 

Þá áréttir Ásmundur að gjaldfrjálsar skólamáltíðir, sérstaklega í grunnskólum, hafi verið sérstakt áherslumál velferðarvaktarinnar, sem starfrækt er af öllum hagaðilum sem koma að velferðarmálum. 

„Þetta hefur verið nefnt sérstaklega sem eitt besta jöfnunartæki gagnvart tekjulágum fjölskyldum, að fá góðan mat og þarna er skref sem við eigum að fagna að sé verið að stíga. Vonandi getum við, bæði ríki og sveitarfélög, í framhaldinu byggt ofan á þetta. Það er ég tilbúinn að ræða.“

Fylgjandi því að ríki og sveitarfélög vinni meira saman

Eins og þetta horfir við þá er lagt upp með að ríkið komi að fjármögnun verkefnisins með sveitarfélögunum næstu fjögur árin. Að þeim liðnum situr verkefnið eftir hjá sveitarfélögunum. Kemur áframhaldandi stuðningur við sveitarfélögin til greina að verkefninu loknu?

Ásmundur áréttir að ekki sé búið að klára kjarasamninga og því liggi ekki fyrir hvort af verkefninu verði. Hann segir það þó mjög algengt með verkefni sem þessi að að þau byrji með ákveðnum hætti og taki síðan breytingum. 

„Þetta væri jákvætt skref sem við gætum rætt og unnið svo áfram, ríki og sveitarfélög, til að byggja ofan á. Því treysti ég,“ segir Ásmundur og bætir við að enginn sé meira fylgjandi því en hann sjálfur að ríki og sveitarfélög vinni meira saman. 

Spurður hvort ekki hafi komið til greina að nýta fjármagnið sem ríkið hyggst leggja til með öðrum hætti til að styðja við barnafjölskyldur, svarar Ásmundur: 

„Jú það er auðvitað alltaf þegar þú ert að vinna í kjarasamningum þá eru ýmsar leiðir sem eru skoðaðar. Þetta er sú leið sem er búið að leggja upp með, hún er jákvæð og eitthvað sem margir hafa verið að hvetja til á undanförnum árum, sérstaklega ýmis hagsmunasamtök,“ segir Ásmundur sem hvetur sveitastjórnarfólk til að stíga skrefið í sameiningu og bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert