Vinnubrögðin ekki nokkrum manni sæmandi

Bogi Nils Bogason.
Bogi Nils Bogason. Ljósmynd/Dagmál

Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelanda­ir, seg­ir vinnu­brögð Versl­un­ar­manna­fé­lags Reykja­vík­ur vera með al­ger­um ólík­ind­um í í kjara­bar­áttu fé­lags­fólks VR sem starfar í farþega- og hleðsluþjón­ustu Icelanda­ir á Kefla­vík­ur­flug­velli. 

Samn­inga­nefnd VR hef­ur samþykkt að efna til at­kvæðagreiðslu um verk­fall hjá þess­um hópi fé­lags­fólks. Verði vinnu­stöðvun samþykkt er gert ráð fyr­ir að verk­föll hefj­ist 22. mars.

Bogi seg­ir að ein­ung­is einu sinni hafi verið fundað um málið og Icelanda­ir hafi ekki fengið tæki­færi til að bregðast við kröf­um VR. 

„Einn fund­ur hef­ur verið hald­inn og þar var okk­ur af­hent kröfu­gerð. Síðan hef­ur ekki verið hald­inn fund­ur og við höf­um ekki getað brugðist við þeim kröf­um. Þegar menn hafa ekki sest niður og rætt mál­in þá er með ólík­ind­um að farið sé í at­kvæðagreiðslu um verk­fall. Reynd­ara fólk en ég hér inn­an­húss hjá Icelanda­ir seg­ir að slíkt sé for­dæma­laust og í raun forkast­an­legt þegar næsti fund­ur um málið hafði ekki einu sinni verið boðaður,“ seg­ir Bogi og seg­ist ekki hafa heyrt af sam­bæri­leg­um dæm­um.    

„Okk­ur finnst með al­ger­um ólík­ind­um að stærsta stétt­ar­fé­lag lands­ins skuli haga mál­um með þess­um hætti. Þetta þekk­ist ekki í samn­ingaviðræðum á markaði. Alla vega ekki sem okk­ur er kunn­ugt um. Þarna er stærsta stétt­ar­fé­lag lands­ins að nota af­markaðan hóp til að koma höggi á ferðaþjón­ust­una sem hef­ur gengið í gegn­um ým­is­legt eins og við þekkj­um.“ 

Trú­ir ekki öðru en farið verði í viðræður

Hvað sérðu fyr­ir þér að sé næsta skref í mál­inu? 

„Ég trúi ekki öðru en að fólk sjái að sér og vinni þetta með hefðbundn­um hætti. Að farið sé í viðræður og reynt að kom­ast að niður­stöðu. Annað er óá­sætt­an­legt því þetta eru ekki vinnu­brögð sem eru nokkr­um manni sæm­andi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert