Vinnubrögðin ekki nokkrum manni sæmandi

Bogi Nils Bogason.
Bogi Nils Bogason. Ljósmynd/Dagmál

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir vinnubrögð Verslunarmannafélags Reykjavíkur vera með algerum ólíkindum í í kjarabaráttu félagsfólks VR sem starfar í farþega- og hleðsluþjón­ustu Icelanda­ir á Kefla­vík­ur­flug­velli. 

Samn­inga­nefnd VR hef­ur samþykkt að efna til at­kvæðagreiðslu um verk­fall hjá þessum hópi félagsfólks. Verði vinnu­stöðvun samþykkt er gert ráð fyr­ir að verk­föll hefj­ist 22. mars.

Bogi segir að einungis einu sinni hafi verið fundað um málið og Icelandair hafi ekki fengið tækifæri til að bregðast við kröfum VR. 

„Einn fundur hefur verið haldinn og þar var okkur afhent kröfugerð. Síðan hefur ekki verið haldinn fundur og við höfum ekki getað brugðist við þeim kröfum. Þegar menn hafa ekki sest niður og rætt málin þá er með ólíkindum að farið sé í atkvæðagreiðslu um verkfall. Reyndara fólk en ég hér innanhúss hjá Icelandair segir að slíkt sé fordæmalaust og í raun forkastanlegt þegar næsti fundur um málið hafði ekki einu sinni verið boðaður,“ segir Bogi og segist ekki hafa heyrt af sambærilegum dæmum.    

„Okkur finnst með algerum ólíkindum að stærsta stéttarfélag landsins skuli haga málum með þessum hætti. Þetta þekkist ekki í samningaviðræðum á markaði. Alla vega ekki sem okkur er kunnugt um. Þarna er stærsta stéttarfélag landsins að nota afmarkaðan hóp til að koma höggi á ferðaþjónustuna sem hefur gengið í gegnum ýmislegt eins og við þekkjum.“ 

Trúir ekki öðru en farið verði í viðræður

Hvað sérðu fyrir þér að sé næsta skref í málinu? 

„Ég trúi ekki öðru en að fólk sjái að sér og vinni þetta með hefðbundnum hætti. Að farið sé í viðræður og reynt að komast að niðurstöðu. Annað er óásættanlegt því þetta eru ekki vinnubrögð sem eru nokkrum manni sæmandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert