Erlendir leigubílstjórar fimmtungur

Leigubíll.
Leigubíll. mbl.is/Unnur Karen

Alls hefur 891 einstaklingur leyfi til leigubifreiðaaksturs hér á landi og hefur þeim fjölgað um 54% frá árinu 2020 eða um 313 manns og er rúmur helmingur þeirra af erlendum uppruna. Í hópi handhafa akstursleyfis til leigubílaaksturs bera 163 erlent nafn, tæpur fimmtungur, langstærstur hluti þeirra af arabískum uppruna, sem ráða má af nafni viðkomandi.

Þetta má sjá á lista yfir atvinnuleyfishafa í leigubílaakstri sem birtur er á vef Samgöngustofu.

Þar er einnig að finna lista yfir handhafa rekstrarleyfis til leigubílaútgerðar, en á þeim lista eru nokkru færri einstaklingar, eða 796 talsins, og eru 65 þeirra skráðir á tveimur leigubílastöðvum og átta á þremur.

Langstærsta leigubílastöðin er Hreyfill, en undir formerkjum hennar aka 382 bílstjórar. Næstar í röðinni koma Hopp og City Taxi með 105 og 102 bílstjóra, en aðrar stöðvar eru með færri bílstjóra á sínum snærum.

Athygli vekur að 94 rekstrarleyfishafar eru ekki skráðir á neina stöð og aka því á eigin vegum. Um helmingur þeirra er af erlendum uppruna.

Í lögum um rekstur leigubifreiða er kveðið á um að rekstrarleyfishafi leigubíls skuli halda rafræna skrá með gervihnattaupplýsingum um upphafs- og endastöð hverrar seldrar ferðar og um staðsetningu meðan á ferðinni stendur. Þeim sem ekki eru skráðir á neina leigubílastöð ber og að halda slíka rafræna skrá, en upplýsingar í þeim skal geyma í að minnsta kosti 60 daga frá því ferð var ekin.

Framkvæmdastjóri Hreyfils staðfesti í samstali við Morgunblaðið að slíkur búnaður væri í öllum leigubílum sem ekið er undir merkjum fyrirtækisins. 

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert