Gætu leitað liðsinnis yfirvalda í Víetnam

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Eggert Jóhannesson

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknardeild lögreglu, segir ekki útilokað að lögregla gæti leitað til kollega sinna í Víetnam vegna rannsóknar í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir lögreglu í gær.

Búið er að úrskurða þrjár konur og þrjá karlmenn í gæsluvarðhald. Þau eru öll íslenskir ríkisborgarar að víetnömskum uppruna.  Grímur segir upplýsingar hafa borist í mörg ár um mögulega brotastarfsemi í fyrirtækjum sem m.a. tengjast hinum handteknu eignarböndum.

Er fólkið grunað um man­sal, pen­ingaþvætti, brot­ á at­vinnu­rétt­ind­um út­lend­inga og um skipu­lagða brot­a­starf­semi.

Hefðu farið í rannsókn óháð skýrslu 

Spurður segir Grímur að skýrsla Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um matvælalager í Sóltúni sé hluti af rannsókninni. Þar kom meðal annars fram að grunur leiki á því að fólk hafi dvalið á lagernum. 

„Það var ekki kveikjan að rannsókninni en er hluti af henni,“ segir Grímur.

Hefði verið farið í þessa rannsókn ef ekki hefði komið til skýrsla heilbrigðiseftirlitsins? 

„Já ég á von á því,“ segir Grímur. „Við höfum verið að fá upplýsingar um starfsemina í gegnum tíðina en það er kannski ekki hægt að segja að þetta hafi verið til rannsóknar í mörg ár,“ áréttar Grímur.  

Engar húsleitir voru gerðar í dag en um 100 lögreglumennn og aðilar tengdir ýmsum stofnunum tóku þátt í aðgerðum í gær. 

Fleiri handtökur gætu fylgt 

Teygir rannsóknin sig út fyrir landsteinana?

„Já hún gerir það að því tilliti til að bakgrunnur fólksins nær til Víetnam og þ.a.l. eitthvað út fyrir landsteinana. Það gæti því verið að við leitum aðstoðar í Víetnam,“ segir Grímur. 

Grímur segir meinta brotaþola bæði vera tengda fjölskylduböndum sem og að vera einstæðingar. Þá eru sumir hinna handteknu tengdir fjölskylduböndum. 

Teljið þið ykkur vera með alla þá í haldi sem þið teljið tengjast málinu?  

„Í svona rannsóknum getur það alltaf gerst að einhver sem ekki hefur verið handtekinn í fyrstu verði svo handtekinn síðar,“ segir Grímur.  

Hann segir málið flókið í rannsókn. Hann gerir ráð fyrir því að tala þurfi við töluverðan fjölda fólks vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert