Gistirými Davíðs fá harða útreið á netinu

Reykjavik Downtown Hotel er nú innsiglað eftir aðgerðir lögreglu
Reykjavik Downtown Hotel er nú innsiglað eftir aðgerðir lögreglu mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gistiheimili og hótel í eigu Davíðs Viðarssonar, áður Quang Le, fá ekki sérlega góða umsögn gesta, sé eitthvað að marka síðuna Tripadvisor.

Einn gestur Reykjavik Downtown Hotel kvartar undan því að herbergin séu skítug og að kakkalakkar skjótist fram þegar ljósin eru kveikt. Taldi sá gestur þetta hafa verið skítugasta gististað sem hún hafi verið á.

Gestur óttast að fá martraðir

Fleiri taka í sama streng og hafa sérstaklega á orði hve hreinlæti sé ábótavant. Annar gestur sagði ólyktina á hótelinu svo megna að hún hafi fest í vitin og óttast sá mest að fá martraðir um hótelið, svo slæmt hafi það verið.

Flestir kvarta gestirnir yfir því að lyftan hafi verið biluð og hafi það átt við um fleira, svo sem ljósabúnað og að viðhaldi sé almennt illa sinnt.

Fleiri umsagnir eru í svipuðum dúr, notaðir tannstönglar á dreif um herbergin og niðurfallið í sturtunni fullt af hárum. Allar þær umsagnir sem vísað er í hér eru frá nýliðnum mánuðum.

Enn virðist vera hægt að bóka gistingu á hótelinu í gegnum heimasíðu þess. Nokkur verðmunur er á bókunarmöguleikum, ódýrara er að panta gegnum heimasíðuna, en töluvert dýrara að bóka í gegnum Quang Le. Glöggir lesendur kannast við að Quang Le, er upphaflegt nafn Davíðs Viðarssonar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert