Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari virtist nokkuð bjartsýnn á að samningar næðust í samningaviðræðum Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttarfélaga þegar Morgunblaðið tók púlsinn á honum í gærkvöldi.
Samningsaðilar funduðu frá því í gærmorgun og fram undir kvöldmat en stíft hefur verið fundað að undanförnu. „Þetta gekk ágætlega í dag. Við erum í þessum lokafasa að ná saman samningi, sem er tafsamt og seinlegt ferli eins og komið hefur í ljós á undanförnum vikum og mánuðum,“ segir Ástráður og spurður um hvort staðan sé þá nokkuð góð í viðræðunum að hans mati svarar hann því játandi.
„Já já, hún er það. Tekist hefur í öllum aðalatriðum að loka hverjum liðnum á fætur öðrum. Menn eru í því að leysa þessa síðustu hnúta sem kunna að vera til staðar. Ég tel að farið sé að hilla undir að hægt verði að skrifa undir samning,“ segir Ástráður.
Fundum verður framhaldið í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag klukkan 13. „Við tökum okkur smá hlé frá fundahöldum í fyrramálið vegna þess að nú er textagerðarvinna í gangi. Engin ástæða er til að láta fólk bíða í húsi eftir því. Einnig þarf að samlesa og leysa úr því sem kann að standa út af að því loknu. Þá standa vonir til þess að menn nái saman og klári.“
Samband íslenskra sveitarfélaga bókaði á föstudaginn athugasemd við forsendur breiðfylkingar stéttarfélaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
Í bókuninni segir að sveitarfélögin geri sér fulla grein fyrir því að aðkoma þeirra að gerð kjarasamninga skipti gríðarlega miklu máli, en að þau óski eftir því við ríkisvaldið að það leiti annarra leiða við að útfæra markmið um gjaldfrjálsar skólamáltíðir en beint í gegnum gjaldskrár sveitarfélaga.
Þá telja sveitarfélögin mikilvægt að tryggja að aðgerðir ríkis og sveitarfélaga muni tryggja öllum barnafjölskyldum kjarabætur, en ekki einungis foreldrum grunnskólabarna.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.