Tillaga meirihluta starfshóps menningar- og viðskiptaráðuneytisins leggur til að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði og hverfi þar með frá samkeppni einkaðila þegar kemur að sölu auglýsinga. Lagt er til að þessi breyting taki gildi um næstu áramót.
Þá er lagt til að útvarpsgjaldið hækki til að bæta RÚV tekjutap vegna þessa og að sú hækkun gangi síðan að hluta til baka.
Í tillögunni er kveðið á um að áfram verði heimilt að birta auglýsingar og tilkynningar sem flokkast undir almannaþjónustu, svo sem almannavarnir, náttúruvá og tilkynningar frá stjórnvöldum og skattayfirvöldum svo eitthvað sé nefnt. Þá er lagt til að ríkissjóður taki yfir lífeyrisskuldbindingar RÚV.
Í tillögunni kemur fram að fjölmiðlastyrkir til einkarekinna fjölmiðla falli niður samhliða því að RÚV fari af auglýsingamarkaði en að staðbundnir minni fjölmiðlar á landsbyggðinni fái áfram styrki.
Í tillögum meirihlutans kemur einnig fram að rekstur RÚV verði endurskoðaður og að skipuð verði nefnd um málið með það fyrir augum að aðlaga rekstur félagsins til framtíðar að breyttu tekjumódeli.
Þá er tillaga um að þjónustusamningur við RÚV verði endurskoðaður og samræmdur við stöðu stofnunarinnar án auglýsingatekna og þann sparnað sem stefnt er að. Samhliða verði nauðsynlegar lagabreytingar gerðar.
Í tillögu til þingsályktunar menningar- og viðskiptaráðherra um aðgerðaráætlun fyrir fjölmiðla fyrir árin 2024-2030 kemur meðal annars fram að framtíðarsýn stjórnvalda sé að fólk hafi greiðan aðgang að fjölbreyttum, ábyrgum og sjálfstæðum fjölmiðlum sem miðla fréttum, samfélagsumræðu og menningu.
Þar segir að stefnt sé að því að skapa starfsumhverfi sem stuðli að öflugri fjölmiðlun í almannaþágu með virkri þátttöku ólíkra og fjölbreyttra fjölmiðla um allt lands.
Áhersla verður lög á að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og starfsumhverfi fjölmiðlafólks. Aðgerðir stjórnvalda miða jafnframt að því að efla menntun blaðamanna, tryggja aðgang að vandaðri fjölmiðlun í almannaþjónustu og styðja við nýsköpun og þróun á fjölmiðlum.
Þá kemur fram í þingsályktuninni að einkareknum fjölmiðlum verði veitt tímabundin undanþága frá greiðslu 70% tryggingargjalds af launum fjölmiðlafólks og að stuðlað verði að jafnara samkeppnisumhverfi fjölmiðla með því að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði og gera auknar kröfur til erlendra streymisveitna og tæknirisa, meðal annars um fjárfestingu í innlendu efni.