Maðurinn sem lét öllum illum látum á þingpöllum Alþingis í fyrradag var leystur úr haldi lögreglunnar síðdegis í gær að loknum yfirheyrslum.
Þetta staðfestir Unnar Már Ástþórsson aðalvarðstjóri í samtali við mbl.is. Hann segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra á hendur manninum eða hvort hann verði sektaður.
„Þetta mál er bara í úrvinnslu hjá rannsóknardeild og á aðgerðasviði. Það er beðið eftir gögnum frá Alþingi, myndefni og fleira, og þegar þau hafa borist verður tekin ákvörðun um framhaldshluta málsins, hvort það verði gerð sekt eða farið með málið fyrir dóm,“ segir Unnar.
Maðurinn, sem er af erlendum uppruna, hékk utan á handriði þingpallanna og virtist hóta því að hoppa niður en þingvörðum tókst að ná tökum á honum með aðstoð Jóns Gunnarssonar þingmanns, og var maðurinn í kjölfarið handtekinn.