Hermann Nökkvi Gunnarsson
Félagið sem heldur utan um Gróðurhúsið í Hveragerði leitar nú leiða til að rifta samningi sínum við veitingastaðinn Wok On. Í Gróðurhúsinu er mathöll þar sem Wok On er til húsa en lokaði staðurinn þar í gær.
Þetta segir Brynjólfur J. Baldursson, einn eigenda Gróðurhússins, í samtali við mbl.is.
„Það hefur orðið algjör forsendubrestur í viðskiptasambandi okkar við Wok On og hafa lögmenn félagsins hafið vinnu við að slíta samstarfinu,“ segir Brynjólfur.
Eins og greint hefur verið frá þá sleit Krónan viðskiptasambandi sínu við Wok On í gær eftir umfangsmikla lögregluaðgerð. Rökstuddur grunur leikur á mansali, peningaþvætti, brotum á atvinnuréttindum útlendinga og gruns um skipulagða brotastarfsemi. Mathöll Höfða skoðar einnig samning sinn við Wok On vegna þessa.
Veitingastöðum Wok On á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði var lokað í gær, þar á meðal á Höfða. Á meðal þeirrar starfsemi sem lögreglan stöðvaði síðdegis í gær er gistihúsið Kastali Guesthouse.
Starfsemi Kastalans og Wok On er í eigu athafnamannsins Davíðs Viðarssonar. Hann rekur einnig Vy-þrif og veitingastaði Pho Vietnam.