Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á gæsluvarðhaldskröfu lögreglu yfir sex einstaklingum sem handteknir voru í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í gær. Þrír karlar og þrjár konur eru í haldi.
Að sögn Elínar Agnesar Kristínardóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, eru hin handteknu íslenskir ríkisborgarar.
Húsleitir voru gerðar á 25 stöðum, þar á meðal á tveimur stöðum í Hveragerði, á Akureyri og í Keflavík. Að sögn Elínar var ýmis tæknibúnaður, tölvur, símar og pappírar haldlögð.
Meintum þolendum mansals stendur til boða aðstoð frá hinum ýmsu stofnunum. Fram kom í tilkynningu frá lögreglu að ekki leiki grunur á því að börn séu þolendur mansals en meðal annarra tóku barnverndaryfirvöld þátt í aðgerðum gærdagsins.