„Við erum líklega að nálgast þann þröskuld sem þetta kerfi þolir áður en það verður annað kvikuhlaup.“
Þetta segir Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en beðið er eftir því að enn og aftur dragi til tíðina á Reykjanesskaganum. Áfram eru taldar líkur á að það verði eldgos, það sjöunda á Reykjanesskaganum á tæpum þremur árum.
„Við getum talað um klukkutíma eða einhverja daga í að það fari af stað einhver atburðarás. Hvort kvikuhlaupið endi með gosi eða ekki er ómögulegt að segja til um en við verðum bara að vera undir það búin að það verði eldgos,“ segir Kristín.
Kvikumagn undir Svartsengi heldur áfram að aukast og vísindamenn á Veðurstofunni telja að eldgos geti hafist með mjög skömmum fyrirvara, jafnvel innan við 30 mínútur.
Á laugardaginn voru menn svo sannarlega viðbúnir eldgosi en svo varð ekki heldur lítið kvikuhlaup. Spurð hvort það hafi komið henni á óvart að ekki skildi koma til goss á laugardaginn segir Kristín:
„Nei frekar hitt að það hafi gosið í öll hin skiptin er frekar það sem er óvenjulegt. Ef við berum saman við Kröflu eða sambærileg kerfi þá er það miklu algengara að það verði ekki gos. Þetta var klárlega atburður sem var inni á okkar radar að væri líklegur,“ segir Kristín og bætir því við að maður þurfi alltaf að búa sig undir það versta.
Skjálftavirkni yfir kvikuganginum hefur verið með minnsta móti síðan kvikuhlaupinu lauk á laugardaginn. Kristín segir að skjálftavirknin „kikki“ ekkert inn fyrr en svipað spennuástand myndist
„Þetta segir okkur það að við erum ennþá í lægra spennuástandi heldur en síðast og skjálftarnir fara í gang þegar átökin verða nógu mikil í jarðskorpunni. Við búumst við því að það gerist í næsta kvikuhlaupi,“ segir Kristín.
Það hefur verið töluverð skjálftavirkni við Reykjanestá í dag.
„Það er mjög vanalegt að það sé skjálftavirkni á Reykjanesskaganum og við Reykjanestána er sig í gangi og orkuvinnsla sem getur valdið smá skjálftavirkni. Þetta verður oft sambland af tektónískum hreyfingum og orkuvinnslu en ég hef svo sem ekkert skoðað þetta nákvæmlega.“
Sumir vísindamenn hafa nefnt að eldgos í Eldvörpum gæti verið í vændum. Spurð út í það segir Kristín:
„Það getur vel verið að það gerist en það getur líka vel verið að það gerist ekki fyrr en eftir þúsund ár. Ég hugsa að við yrðum að sjá einhverja dramastíska breytingu áður en það færi að gjósa þar og við erum ekki enn komin þangað.“