Ólafur Gestur Arnalds, prófessor og dr. í jarðvegsfræði, hlaut í dag Viðurkenningu Hagþenkis 2023 fyrir Mold ert þú – Jarðvegur og íslensk náttúra sem Iðnú gefur út.
Alls voru 10 bækur tilnefndar en Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings og er það viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, sem stendur að valinu.
Viðurkenningin felst í sérstöku viðurkenningarskjali en að auki fær vinningshafinn 1.500.000 kr. í verðlaunafé.
„Þetta kom á óvart, ég bjóst ekki við þessu, en þetta er óskaplega mikill heiður og mjög ánægjulegt því þessi bók er kannski að hluta til lífsstarf mitt, falið á síðunum. Að fá svona viðurkenningu síðan fyrir það getur ekki annað en yljað manni,“ segir Ólafur, inntur eftir því í samtali við Morgunblaðið hvaða þýðingu viðurkenningin hafi fyrir hann.
Nánar verður rætt við Ólaf í Morgunblaðinu á morgun, fimmtudaginn 7. mars.