Salvör Nordal íhugar framboð

Salvör Nordal, umboðsmaður barna íhugar að bjóða sig fram til …
Salvör Nordal, umboðsmaður barna íhugar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. mbl.is/Hari

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, íhugar að bjóða sig fram í embætti forseta Íslands í komandi kosningum. Hún segist ætla gefa sér umhugsunarfrest til páska en á allra síðustu dögum hafi hún fundið fyrir auknum áhuga.

„Já, ég hafði satt að segja lítið verið að velta þessu mikið fyrir mér að þessu sinni, en finn nú á allra síðustu dögum aukinn áhuga og því hef ég ákveðið að taka mér tíma til að hugsa þetta fram að páskum.“

Áður orðuð við embættið

Þá segir Salvör að fólk hafi hvatt hana til þess að bjóða sig fram í þessum kosningum, en hún hefur áður verið orðuð við embættið síðustu kosningar.

„Fólk hefur haft samband við mig nú eins og áður og auðvitað þykir manni vænt um að finna stuðning í þetta embætti.“

Í kosningunum 2016 var skorað á Salvöru að bjóða sig fram til embættisins en eftir að hafa hugsað málið alvarlega ákvað hún bjóða sig ekki fram:

„Þá var ég ekki tilbúin í framboð af ýmsum ástæðum. Hvort ég er tilbúin núna kemur í ljós.“

Gjarnan viljað sjá Guðna áfram í embætti

Hún segir að það hafi komið henni á óvart að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafi ákveðið að hætta eftir átta ár: 

„Ég hefði gjarnan viljað að hann væri eitt kjörtímabil í viðbót og var ekki að hugsa um þetta þegar þær fregnir bárust.“

Salvör hefur gegnt embætti umboðsmanns barna síðastliðin ár og var forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir það. Hún er með doktorsgráðu í heimspeki frá Calgary háskólanum í Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert