Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók til orðs á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins og skaut föstum skotum á Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra.
Hún fagnaði því að 72 dvalarleyfishafar væru væntanlegir til Íslands, en gagnrýndi seinagang og aðgerðarleysi Bjarna í málinu og sagði það vera sérstakt rannsóknarefni út af fyrir sig.
Oddný segir að umfjöllun um málið síðustu daga gefi að skilja að símtal Bjarna til utanríkisráðherra Ísrael 27. febrúar síðastliðinn hafi skipt sköpum fyrir afgreiðslu þeirra 72 dvalarleyfishafa sem væntanlegir eru til landsins.
Hún bendir á að mótmæli hafi staðið yfir á Austurvelli í nákvæmlega tvo mánuði þann dag er Bjarni hringdi í ráðherrann.
Enn fremur vísaði hún til kvennanna þriggja sem fóru á eigin vegum til Kaíró þann 6. febrúar og komu fólki burt frá Gasa.
Oddný segir Bjarna hafa gefið í skyn að ekkert yrði aðhafst í málinu fyrr en komist hefði verið að samkomulagi um breytingar á útlendingalögum.
Þá segir hún útlendingalögin takmarka rétt flóttafólks til fjölskyldusameiningar, en að loks þegar lögin voru lögð fram hringdi Bjarni í samstarfsmann sinn í Ísrael.
„Seinagangur og aðgerðaleysi hæstvirts utanríkisráðherra er óboðlegur og í raun sérstakt rannsóknarefni. Hvers vegna beið ráðherrann allan þennan tíma þegar öllum mátti vera ljóst að hver dagur sem leið skipti sköpum? Þurfti flokkur hæstvirts forsætisráðherra að afgreiða útlendingafrumvarp hæstvirts dómsmálaráðherra út úr þingflokki VG áður en utanríkisráðherrann hreyfði legg eða lið til að hjálpa fólki sem var í mikilli lífshættu? Er það virkilega svo?“ spurði Oddný að lokum.