Sérsveitin kölluð til vegna torkennilegs pakka

Liðsmenn sérsveitarinnar voru kallaðir til.
Liðsmenn sérsveitarinnar voru kallaðir til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Snemma í morgun varð starfsmaður umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins var við torkennilegan pakka í  anddyri hússins í Borgartúni 26.

Pakkinn var í almannarými, merktur nafni ráðherra með tússpenna, án frekari skýringa eða póststimpils, að því er segir í skriflegu svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. 

„Í samræmi við verklagsreglur Stjórnarráðsins um torkennilega hluti var sérsveitin kölluð til. Eftir nánari skoðun reyndist pakkinn innihalda gjöf sem nú hefur verið komið í hefðbundið gjafaferli hjá ráðherra,“ segir jafnframt í svarinu. 

Þess má geta að í Borgartúni 26 eru þrjú ráðuneyti, dómsmálaráðuneytið, matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert