Tekinn með umtalsverða fjármuni í Leifsstöð

Maðurinn var með 21.000 evrur og 10.000 dollara í vörslum …
Maðurinn var með 21.000 evrur og 10.000 dollara í vörslum sínum þegar hann var handtekinn. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tæplega fertugan karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti. Þá voru 21.000 evrur og 10.000 dalir gerðir upptækir en samanlögð upphæð jafngildir um 4,4 milljónum kr. 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum höfðaði málið með ákæru 2. janúar 2024 á hendur manninum, sem er erlendur ríkisborgari.

Í ákærunni er hann sakaður um að að hafa á tímabilinu 26. nóvember til 4.desember 2022 tekið við samtals 21.000 evrum og 10.000 dollurum í reiðufé frá óþekktum aðila eða aðilum, en manninum gat ekki dulist að um væri að ræða ávinning af refsiverðum brotum.

Fram kemur að maðurinn var með reiðuféð í vörslum sínum þegar hann var handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar 4. desember 2022 á leið til Póllands með flugi.

Tók þátt í refsiverði broti með að taka á móti peningunum

Með háttsemi sinni móttók maðurinn ávinning af refsiverðum brotum, geymdi ávinninginn, flutti og leyndi ávinningnum og upplýsingum um uppruna, eðli, staðsetningu og ráðstöfun hans, eins og það er orðað í ákærunni. 

Í dómi héraðsdóms, sem féll í dag, kemur fram að maðurinn hafi ekki mætt við þingfestingu málsins þrátt fyrir löglega birtingu ákæru og fyrirkalls í Lögbirtingablaðinu. 

Tekið er fram að maðurinn hafi ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi sem kunnugt sé.

„Hann er nú sakfelldur fyrir peningaþvætti og er um töluverðar upphæðir að ræða,“ segir dómnum. 

Maðurinn var enn fremur dæmdur til að greiða 870.000 kr. þóknun verjanda síns og 62.000 kr. í aksturskostnað verjanda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert