Tveir þrettán ára drengir lentu undir snjóflóðinu sem féll við skíðasvæðið í Stafdal við Seyðisfjörð á laugardaginn.
RÚV greinir frá en þar segir að annar hafi legið meðvitundarlaus og týndur í flóðinu í um 20 mínútur.
Í fréttatilkynningu lögreglunnar á laugardaginn kom fram að einn hefði lent í snjóflóðinu en tveir hefðu verið á svæðinu þegar það féll.
Lögreglunni var tilkynnt um snjóflóðið laust eftir klukkan 16 á laugardaginn.
Viðbragðsaðilar voru strax ræstir út, björgunarsveitir á svæðinu og þyrla Landhelgisgæslunnar var reiðubúin að fara af stað með hjálparlið og búnað. Í tilkynningu lögreglunnar kom fram að klukkan 16.30 hafi viðkomandi fundist og laus undan flóðinu með aðstoð félaga síns.