Þriggja stiga jarðskjálfti varð við Reykjanestá á ellefta tímanum í morgun og hafa fleiri skjálftar mælst á svæðinu.
Að sögn Sigríðar Magneu Óskarsdóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, tengjast skjálftarnir ekki jarðhræringunum í nágrenni Grindavíkur.
„Það hefur verið virkni þarna undanfarnar vikur, við höfum séð það. Jarðskjálftar eru mjög þekktir á þessu svæði,” segir Sigríður Magnea.
Lítil skjálftavirkni hefur verið í kvikuganginum að undanförnu og aðeins einn hafði mælst þar fyrr í morgun frá miðnætti.