„Trúi ekki öðru en að þetta séu einhver mistök“

Maðurinn gerði tilraun til að ráðast á eigendur og hafði …
Maðurinn gerði tilraun til að ráðast á eigendur og hafði lagt allt í rúst.

Eigandi iðnaðarfyrirtækis í Hafnarfirði er gáttaður á niðurstöðu lögreglunnar um að fella niður mál þar sem innbrotsþjófur var gripinn glóðvolgur í fyrirtæki þeirra.

Þjófurinn var að rista sér brauð í eldhúsaðstöðu fyrirtækisins þegar tveir eigenda komu að manninum. Hann gerði sig líklegan til að ráðast á þá en annar eigenda hafði innbrotsþjófinn undir og hélt honum þar til lögreglan kom.

Aðkoman var miður geðsleg og hafði öllu verið rótað til og rúða brotin til að komast inn í fyrirtækið. Auk þess var búið að setja dót í tösku sem þjófurinn hafði að öllum líkindum ætlað að taka með sér.

Skrítin skilaboð til almennings 

Ingvar Sigurðsson er einn eigenda Vallarbrautar sem selur landbúnaðartæki en innbrotið átti sér stað í húsakynnum fyrirtækisins.

„Ég trúi ekki öðru en að þetta séu einhver mistök,“ segir Ingvar.

Bendir hann á að maðurinn hafi náðst á staðnum og verið leiddur í burtu í handjárnum. Því sé ekki eins og ónóg sönnunargögn séu til staðar.

„Manni finnst skrítið að saksóknari og lögregla vilji senda almenningi þau skilaboð að það sé í lagi að fremja húsbrot og skemmdarverk,“ segir Ingvar.

Óska eftir rökstuðningi 

Hann segir að skiljanlega upplýsist sum innbrot ekki en í þessu tilfelli horfðu þeir upp á lögreglu fjarlægja manninn.

Ingvar segist hafa talað við saksóknara sem hyggst óska eftir skýrslu og rökstuðningi frá lögreglu um það hvers vegna málkið var látið niður falla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert