Útgáfa á nýjum nafnskírteinum er hafin hjá Þjóðskrá Íslands. Útgáfan hefur verið lengi í undirbúningi, allt frá því að fyrsta verkáætlun var samþykkt árið 2007 og fram til ársins 2023 þegar ný lög um nafnskírteini tóku gildi.
Nýju nafnskírteinin eru fullgild persónuskilríki og geta allir íslenskir ríkisborgarar óháð aldri sótt um nafnskírteinin og notað þau til auðkenningar, að því er segir í tilkynningu frá Þjóðskrá.
Eldri nafnskírteini sem voru gefin út fyrir 1. janúar 2013 féllu úr gildi 1. desember 2023 með gildissetningu nýrra laga. Eldri nafnskírteini sem gefin hafa verið út eftir þann tíma og fram til 1.mars 2024 falla úr gildi 31. desember 2025.
„Með nýrri útgáfu nafnskírteina er verið að auka öryggi þeirra í samræmi við auknar kröfur sem gerðar eru til persónuskilríkja ásamt því að nafnskírteinin er í handhægri stærð í uppfærðu útliti. Nýju lögin um nafnskírteini byggja á, og innleiða, Evrópusambands-reglugerð sem var gagngert sett til að auka öryggi persónuskilríkja og ferðaskilríkja innan Evrópusambandsins/Evrópska efnahagssvæðisins,” segir í tilkynningunni.