„Verið að murka lífið úr menningarlífinu“

Baldur hefði verið til að skoða aðrar lausnir en þá …
Baldur hefði verið til að skoða aðrar lausnir en þá að færa bókasafnið í Rokksafnið. Samsett mynd/Aðsend/Hljómahöll

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar ætti að leggja frá sér rörið og skoða aðra möguleika í stöðunni heldur en að færa bókasafn bæjarins í rými Rokksafns Íslands, og þar með leggja niður safnið.

Þetta segir Keflvíkingurinn Baldur Þórir Guðmundsson, sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu, í samtali við mbl.is.

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar samþykkti í gær gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðismanna að færa bókasafnið í rými Rokksafnsins í Hljómahöll. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði í samtali við mbl.is á dögunum að Rokksafnið yrði lagt niður en forseti bæjarstjórnar segir það ekki enn alveg ákveðið, þó væri það vitað að starfsemin verður í hið minnsta verulega skert.

Vill skoða aðrar lausnir

Baldur hefði verið til að skoða aðrar lausnir en þá að færa bókasafnið í Rokksafnið.

„Það er verið að murka lífið úr menningarlífinu í Reykjanesbæ. Allavega hefur þessi meirihluti ekki bætt neitt í styrki til menningarverkefna síðustu 10 árin. Í staðinn fyrir að byggja á því sem vel er gert og nýta tækifærin sem Hljómahöllin gefur, á að þrengja að starfseminni og loka Rokksafninu,“ segir Baldur.

Gengur ekki upp að setja bókasafn í Hljómahöllina

Sjálfur er Baldur tónlistarmaður og er sonur Rúnars Júlíussonar heitins og viðurkennir að málið sé honum nærkomið. Hann gagnrýnir þó vinnubrögð meirihlutans og segir hugmyndina vanhugsaða. Rokksafnið skipti máli fyrir orðspor bæjarins og varðveiti arfleið tónlistarinnar.

„Mér finnst að við eigum að halda á lofti tónlistinni sem hluti af menningararfinum okkar – að þetta sé eitthvað sem við eigum að hafa í hávegum hjá okkur. Hugmyndin á bak við Hljómahöll eru þessi samlegðaráhrif. Tónlistarhús, tónlistarskóli og rokksafn sem styðja við hvert annað,“ segir Baldur og bætir við:

„Við erum enn þá að byggja á þessu, þetta er tiltölulega ungt. Orðspor tekur smá tíma að myndast og ef við ætlum síðan að skemma allt þetta concept með því að henda inn þarna bókasafni – mér finnst það bara ekki passa og ekki ganga upp.“

Rokksafni Íslands verður lokað að sögn bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Forseti bæjarstjórnar …
Rokksafni Íslands verður lokað að sögn bæjarstjóra Reykjanesbæjar. Forseti bæjarstjórnar segir það ekki enn ákveðið. Ljósmynd/hljomaholl.is

Gagnrýnir vinnubrögð meirihlutans

Óháður ráðgjafi var fenginn til að gera skýrslu um hugmyndina í fyrra og í SVÓT greiningu komu fram umtalsverðar ógnir og veikleikar við að flytja bókasafnið í Hljómahöll. Segir Baldur að fáir jákvæðir fletir hafi fundist á þessari hugmynd í þeirri greiningu.

Þrátt fyrir það hafi forseti bæjarstjórnar, oddviti Samfylkingarinnar, gert aðra skýrslu sem endurspegli ekki niðurstöðu rýningar ráðgjafans.

„Það er eiginlega skautað fram hjá þessu öllu saman og gert lítið úr öllum athugasemdum í þessari skýrslu forsetans. Hugmyndin var svo að það yrði starfshópur út frá bæjarstjórn sem myndi rýna þetta frekar og skoða bæði kostnað, rými og farið í alvöru greiningarvinnu. Það var ekki vilji fyrir því og kemur fram í skýrslunni að starfshópurinn hafi ekki fúnkerað því starfshópurinn var ekki sammála.

Þá í stað þess að draga fólk að borðinu og reyna rýna þetta í sameiningu þá er bara einhliða ákvörðun tekin, finnst mér allavega. Meirihlutinn bara tekur þess ákvörðun og þar er forseti bæjarstjórnar í broddi fylkingar sem vinnur gögn í fólkið.“

Björgvin Halldórsson er einn þeirra tónlistarmanna sem hafa lánað Rokksafni …
Björgvin Halldórsson er einn þeirra tónlistarmanna sem hafa lánað Rokksafni Íslands muni. Á myndinni leikur hann á flygil vinar síns,Ragnars Bjarnasonar, í rokksafninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveitarfélagið fær ekki gesti án þess að hafa eitthvað til að bjóða upp á

Hann segir að virði Rokksafns Íslands hafi meira gildi en beinar tekjur safnsins. Safnið sé einn af þeim seglum sem laði fólk að sveitarfélaginu sem stundar svo viðskipti við veitingahús, kaffihús og fleiri fyrirtæki í sveitarfélaginu.

„En ef við fækkum alltaf þessum seglum þá fáum við enga gesti,“ segir Baldur.

Hann segir að í skýrslu óháða ráðgjafans hafi komið fram að ekki ætti að halda áfram með hugmyndina án þess að ræða við bæjarbúa. Það samráð hafi aldrei átt sér stað af hálfu meirihlutans.

Vill að menn „leggi rörið frá sér“

Hvað værir þú til að sjá gerast?

„Ég er að leggja til að menn leggi rörið frá sér og skoði aðra valkosti fyrir bókasafnið.“

Hann skrifaði grein í Víkurfréttir þar sem hann leggur fram þrjár tillögur og segir það ekki vera tæmandi listi.

„Bókasafnið fái inni í Íþróttaakademíunni. Húsið er með takmarkaða nýtingu og býður fimleikunum heldur ekki upp á kjöraðstæður. Rými er nægt fyrir bókasafnið. Fyrirlestrasalur er frábær og aðrir salir eru bjartir og rúmgóðir. Bókasafnið verði fléttað inn í Myllubakkaskóla þar sem framkvæmdir standa nú yfir. Bókasafnið væri þá aftur komið á upphafsreit en þegar ég var að alast upp fór ég upp á efri hæðina í íþróttahúsi skólans til að ná í bækur. Byggt verði menningarhús á HF reitnum svokallaða. Svarta pakkhúsið má víkja og byggja má upp menningarstarfsemi á þessum reit í kringum Fischershúsið. Þarna gæti verið bókasafn og aðstaða fyrir aðra menningarhópa ásamt kaffihúsi og miklu lífi,“ skrifaði Baldur í Víkurfréttir.

Rokksafn Íslands.
Rokksafn Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert