Verkfallsaðgerðir gangi beint gegn markmiðum VR

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli ganga beint gegn þeim markmiðum sem VR og hin verkalýðsfélögin settu sér í upphafi um að halda niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu.

„Ég held að Ragnar Þór [Ingólfsson, formaður VR] ætti að íhuga vel með hvaða hætti aðgerðir á Keflavíkurflugvelli, sem hafa verulega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu, hafa áhrif á hans eigin félagsfólk,“ segir Jóhannes og áréttir að það sama gildi um önnur verkalýðsfélög sem fyrirhuga verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli.

VR tilkynnti í morgun um að félagið hygðist efna til atkvæðagreiðslu um verkföll meðal félagsfólks VR sem starfar í farþega- og hleðsluþjón­ustu Icelandair á Kefla­vík­ur­flug­velli.

Bein og neikvæð áhrif á þjóðarbúið

Jóhannes áréttir að verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli beinist fyrst og fremst að því að stöðva ferð fólks um flugvöllinn. Áhrifin sem slíkt hefur segir hann hafa bein og mjög neikvæð áhrif á alla ferðaþjónustu, sem hefur það í för með sér að neysla ferðamanna verður minni í landinu.

„Ef aðgerðir dragast á langinn geta þær valdið verulegum skaða gagnvart þeim markmiðum sem lagt er upp með,“ segir Jóhannes og setur áhrifin í samhengi við áhrif þess að loðnuvertíð náist ekki upp.

Til útskýringar segir hann að 100.000 ferðamenn hafi sömu áhrif á þjóðarbúið, gjaldeyristekjur, verðbólgu, vaxtastig og lífskjör almennings, eins og þegar loðnuvertíð bregst. Þ.e. ef hingað koma 100.000 færri ferðamenn á ári.

Þá segir hann verkfallsaðgerðir ekkert gaman mál fyrir þá sem standa í þeim. Það hafi sýnt sig í gegnum tíðina að skaðinn sem verður hjá fólki sem fer í verkföll náist ekki alltaf upp með þeim samningum sem nást í kjölfarið.

Tími til að fólk einbeiti sér að samtalinu

„Ég held að það sé kominn tími til að fólk einbeiti sér að því að klára samtalið við borðið í stað þess að fara í svona vanhugsaðar aðgerðir,“ segir Jóhannes og bætir við að samningsaðilar séu komnir ansi langt við samningaborðið um að ná sameiginlegum skilningi og sameiginlegum markmiðum.

„Þess vegna kemur þetta mér verulega á óvart að það sá hlaupið af stað í þetta á meðan fólk er að tala saman við samningaborðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert