„Alltaf betra að láta vita“

Kolbrún segir að það séu ákveðnar birtingarmyndir mansals sem almenningur …
Kolbrún segir að það séu ákveðnar birtingarmyndir mansals sem almenningur gæti orðið var við og ætti þá að láta vita. AFP

Lögregluyfirvöld á Íslandi hafa áhyggjur af því að mansal sé að færast í aukana hér á Íslandi. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því hverjir gætu verið fórnarlömb mansals en þó eru nokkrar birtingarmyndir þess sem almenningur gæti tekið eftir og ætti að tilkynna til lögreglu.

Þetta segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is.

„Ef að almenningur verður þess áskynja að það sé eitthvað skrýtið í gangi þá er alltaf betra að láta vita. Sérstaklega ef við sjáum börn eða ungt fólk í svona stöðu þá eigum við að láta vita,“ segir Kolbrún.

Getur tekið eftir mansali á hinum ýmsu vettvöngum

Á Íslandi sem og öðrum löndum lýsir mansal sér oftast sem vinnumansal eða kynlífsmansal. Aðeins þrjú mansalsmál hafa farið fyrir dóm á Íslandi og aðeins hefur orðið ein sakfelling.

Kolbrún segir að það séu ákveðnar birtingarmyndir mansals sem almenningur gæti orðið var við og ætti þá að láta vita.

Starfsmenn banka og heilbrigðisstofnana gætu tekið eftir fórnarlömbum mansals en einnig gætu almennir borgarar á ferð um landið tekið eftir fórnarlömbum mansals á veitingastöðum eða í ferðaþjónustunni.

„Þetta er fyrst og fremst þeir sem hafa einhvern tengipunkt eins og fólk í heilbrigðisþjónustunni. Ef einhver kemur inn á heilbrigðisstofnun eða heilsugæslu og þú sérð að það er einhver skrýtin dýnamík í gangi á milli fólksins. Því oft er það þannig að þeir sem eru þolendur mansals fá ekki að fara einir í svona.“

Þurfa að taka pening úr banka til að gefa vinnuveitenda

Sum fórnarlömb vinnumansals að fá borguð laun en þurfa svo að fara í banka og taka út allan peninginn til þess að afhenda vinnuveitenda sínum.

„Það eru svona hlutir sem bankastarfsmenn geta verið meðvitaðir um. Eru menn að koma þarna í löngum röðum og taka jafnvel allt út og afhenda einhverjum öðrum?“

Er alltaf sama manneskjan að vinna?

Kolbrún nefnir sem dæmi að það ættu mögulega viðvörunarbjöllur í gang ef þú ferð á veitingastað og það er alltaf sama manneskjan að vinna, til dæmis við að vaska upp eða elda matinn. Þá hafa einnig komið mál þar sem grunur er um mansal á litlum hótelum eða gististöðum. Kolbrún gefur dæmi:

„Þú ert með lítinn gististað og þar er gistirými fyrir 50 manns en það eru kannski tveir starfsmenn. Það gefur auga leið að það gengur ekki upp. Það þarf að skipta á 50 rúmum á hverjum einasta degi, það þarf að vera vakt allan sólarhringinn, það þarf að gera og græja allt sem tengist þessari starfsemi. Þá getur maður kannski farið að hugsa „nei þetta er eitthvað skrýtið“.

Kolbrún segir að ef óþægileg tilfinning kemur upp þá saki ekki að láta vita með því að hringja í lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka