Altjón á áttunda tug húsa í Grindavík

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á áttunda tug húsa í Grindavík eru ónýt samkvæmt mati Náttúruhamfaratrygginga Íslands.

„Eins og staðan er hjá okkur í dag vitum við af altjónum á allt að 74 fastanúmerum/húseignum í Grindavík. Það er útilokað að spá fyrir um hvort fleiri eignir eigi eftir að bætast við þann lista, en það er þó ekki ósennilegt,“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands, við mbl.is spurð hversu mörg altjón hafi orðið á húsum í Grindavík í þeim náttúruhamförum sem átt hafa sér stað síðan i nóvember.

Hulda Ragnheiður segir að altjónin séu nánast alfarið næst stóru sprungunum sem liggja í gegnum bæinn.

412 tilkynningar um tjón á húseignum

Hún segir að alls hafi borist 412 tilkynningar um tjón á húseignum og 53 tilkynningar um tjón á innbúum og lausafé. Hulda segir að af innsendum tjónstilkynningum vegna húseigna í Grindavík séu 334 tilkynningar vegna íbúðaeigna og 78 vegna atvinnueigna.

Altjónin eru nánast alfarið næst stóru sprungunum sem liggja í …
Altjónin eru nánast alfarið næst stóru sprungunum sem liggja í gegnum bæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðspurð um bótaákvarðanir segir Hulda:

„Flest altjónsmál hafa verið kynnt fyrir eigendum og uppgjör langt komið í flestum tilvikum. Í lok þessarar viku eða í byrjun næstu viku má búast við því að sendar verði út kynningar á einhverjum hlutatjónum og þeim tjónum sem metin eru undir eigin áhættu, sem er 400 þúsund krónur.

Ekki hægt að bíða lengur

Hvernig hefur þessi vinna gengið og hvað með framhaldið?

„Það hefur gengið vel að fá matsmenn til starfa, en aðstæður í Grindavík eru með þeim hætti að það er mjög vandasamt að ákveða hvort og þá hvenær er rétti tíminn til að taka endanlega afstöðu til umfangs tjónanna, þar sem þau virðast taka breytingum frá einum tíma til annars.

Hulda segir að vinna við tjónamötin hafi verið með hliðsjón að þessu en ekki sé talið hægt að bíða lengur til að sjá hvort að atburðurinn haldi áfram eða ekki. Hún segir að eigendur húseigna hafi sýnt málum mikinn skilning og starfsfólk Náttúruhamfaratrygginga Íslands séum þeim þakklát fyrir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert