Ekkert ætti að koma í veg fyrir undirritun

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari vonast til þess að breiðfylking stéttarfélaga og Samtök atvinnulífsins undirriti nýjan kjarasamning síðdegis í dag.

„Ég veit ekki annað en að allir þræðir þess sem við höfum verið að reyna að sauma saman séu nokkurn veginn að vera komnir. Það er smá frágangur eftir og ég veit ekki til þess að það sé neitt í sambandi við kjarasamninginn sem kemur í veg fyrir að hann verði undirritaður,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is.

Ástráður segir að einhverjar viðsjár séu uppi á enda stjórnvalda og hann segist ekki vita hvernig málin muni þróast. Gjaldfrjálsar máltíðir fyrir grunnskólabörn hefur verið krafa breiðfylkingar í samningunum sem sumir kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstiginu virðast misjafnlega hrifnir af.

Fundir með fagfélögunum og VR

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði við mbl.is í gær að mögulegt væri að undirrita nýjan samning í dag en sagði það standa og falla með afstöðu nokkurra sveitarfélaga.

Ástráður segir að fundur með fagfélögunum hefjist klukkan 10 og með VR klukkan 13. Síðan sé boðaður fundur breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins klukkan 16 þar sem vonast er til að hægt verði að undirrita nýja kjarasamninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert