„Ekki sársaukafullur niðurskurður“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuðningur stjórnvalda við langtímakjarasamning sýnir að stjórnvöld setji barnafjölskyldur í forgang að sögn Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur. Þær kalli einnig á aðhald í rekstri á næstu árum sem gæti birst í uppstokkun, breytingu á ríkiskerfum og sölu ríkiseigna.

„Það er gríðarlega mikið framfaraskref að það sé verið að landa samningi til 4 ára. Það er sjaldgæft á Íslandi,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra.

Megi búast við aðhaldi

Langtímakjarasamningur var undirritaður í dag og kennir þar ýmissa grasa. Víðtækar stuðningsaðgerðir stjórnvalda setja mark sitt á samninginn og er gert ráð fyrir þeim í fjármálaáætlun fyrir árin 2025 til 2029.

Þórdís segir aðspurð að því megi til dæmis búast við uppstokkun, breytingum á ríkiskerfum og mögulega sölu ríkiseigna. 

„Þetta er ekki sársaukafullur niðurskurður. Þetta er eðlileg og skynsamleg breyting á ríkiskerfum þar sem við getum staðið vörð um og bætt þjónustu við fólk en minnkað yfirbyggingu og farið í aðgerðir sem eru eðlilegar og skynsamlegar. Það er verkefnið framundan.“

Sala ríkiseigna komi til greina

Liggur fyrir hvar þurfi að skera niður?

„Við erum í vinnu við fjármálaáætlun til næstu ára. Í mínum huga eru mikil tækifæri í því að fara betur með almannafé. Það að auka skilvirkni og hagræðingu í ríkiskerfinu, einfalda stofnanakerfi og svo framvegis er ekki sársaukafullur niðurskurður. Þetta er eðlileg og skynsamleg breyting á ríkiskerfum þar sem við getum staðið vörð um og bætt þjónustu við fólk en minnkað yfirbyggingu og farið í aðgerðir sem eru eðlilegar og skynsamlegar. Það er verkefnið framundan.“

Fara þurfi í uppstokkun og kerfisbreytingar svo dæmi sé nefnt.

„Síðan finnst mér skýrt að það að fara í þessar aðgerðir er ákvörðun um að forgangsraða í þessa þágu. Það þýðir að ef ríkisfjármálin eiga að vera ábyrg og styðja við peningastefnu þá þurfi útgjöld að fara niður annars staðar á móti eða gera aðrar ráðstafanir. Eins og mögulega selja eignir.“

„Erfitt að setja verðmiða á slíkan frið“

Þórdís leggur ríka áherslu á mikilvægi þess að skapa frið á vinnumarkaði og setja tóninn fyrir komandi kjaraviðræður.

„Það er erfitt að setja verðmiða á slíkan frið á vinnumarkaði [sem í samningnum felst]. Ég vonast til þess að aðrir sem eiga eftir að semja geri það hratt og örugglega. Það er búið að gefa út skýrt merki og aðgerðir stjórnvalda liggja fyrir.“

Aðgerðirnar dragi fram skýra forgangsröðun stjórnvalda í þágu barnafjölskyldna, sem kalli á ábyrg ríkisfjármál.

„Þessar aðgerðir eru í þágu fjöklskyldna, það þýðir að forgangsröðunin er skýr. Það kallar þá á það að ef ríkisfjármálin eiga enn þá að vera ábyrg þá þarf að hagræða. Og það sem skiptir langmestu máli er að hér erum við að ná samningi til fjögurra ára. Það er mikils virði fyrir hvert einasta heimili á Íslandi og öll fyrirtæki, stór og smá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert