Eldur kviknaði á snyrtistofu á Garðatorgi um eittleytið í nótt. Allt tiltækt lið slökkviliðsins var sent á vettvang, en reykur var einnig kominn inn í fleiri byggingar á torginu og sömuleiðis um allt svæðið.
Slökkviliðið var í um tvo tíma á vettvangi en ekki er vitað um eldsupptök. Eldurinn náði ekki að breiðast út í annað húsnæði en skemmdirnar á snyrtistofunni eru taldar miklar.
Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu tók nokkurn tíma að reykræsta en ekki er ljóst hversu mikill eldurinn var í upphafi.
Enginn var fluttur á slysadeild. Bæjarskrifstofur Garðabæjar eru m.a. á sama svæði ásamt ýmsum fyrirtækjum.